150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í dag fjallaði ég, í sem skemmstu máli, um þær erfiðu aðstæður sem við glímum við í efnahagsmálum og atvinnumálum um þessar mundir. Ég nefndi samdrátt í framleiðslu sem spáð er að geti orðið verulegur. Ég nefndi það, sem augljóst er, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar dragast náttúrlega mjög saman þegar ferðaþjónustan er á hnjánum. Ég gat um að það væri vegna sérstakra ástæðna, að gengi krónunnar hefði ekki gefið meira eftir en ætla mætti í ljósi þess mikla samdráttar sem hefur orðið á gjaldeyrisinnstreymi með tilheyrandi afleiðingum fyrir verðlagið. Það er líka ástæða til að nefna að þetta hefur leitt af sér að staða ríkissjóðs er gjörbreytt frá því sem áður var.

Ég verð að leyfa mér að segja, herra forseti, að einhvers konar afneitun á staðreyndum virðist ráða för hér þegar viðbragð við þessum aðstæðum eiga að vera 50 milljarðar úr ríkissjóði í svokallaða borgarlínu. Borgarlína er fyrirbæri, svo að ég noti orð sem hv. þm. Sigríður Ásthildur Andersen notaði ítrekað í ræðu sinni, sem var auðvitað mjög athyglisverð, í þessari umræðu. Reyndar leyfi ég mér að bæta við að það væri með öllu óskiljanlegt ef hún myndi greiða atkvæði með málinu miðað við hvernig hún fjallaði um það. Ef við lítum yfir sviðið er ljóst að það er fjarri því að Sjálfstæðisflokkurinn standi heill og óskiptur að baki þessu máli. Það sýnir ræða hv. þingmanns og afstaða manna af veigameira tagi í Sjálfstæðisflokknum, til að mynda það hvernig fyrrverandi formaður og forsætisráðherra, nú ritstjóri Morgunblaðsins, hefur fjallað um málið, nú síðast í ritstjórnargrein í dag, og hvernig Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður flokksins og ráðherra, hefur fjallað um það á víðlesinni bloggsíðu sinni.

Óskiljanlegt atriði í þessu máli er að draga eigi Keldnalandið inn í það. Hver eru tengsl Keldnalands við svokallaða borgarlínu, herra forseti? Keldnaland er verðmætasta land sem ríkið á hér á höfuðborgarsvæðinu, um 130 hektarar ef ég veit rétt. Það er á mjög mikilvægum stað á höfuðborgarsvæðinu. Þetta land hefur verið nefnt í sambandi við hugsanlegt þjóðarsjúkrahús þegar horft er til framtíðar. Og það er ótrúlegt að láta sér detta það í hug, herra forseti, að draga þetta land inn í mál, sem er svo vanbúið sem raun ber vitni. Af hverju segi ég vanbúið, herra forseti? Hvar er kostnaðaráætlunin? Hvar eru fráviksmörk um kostnað? Hvar er arðsemisgreining? Hvar er rekstraráætlun borgarlínu? Hver á að bera kostnaðinn af þessu? Það kemur hver maðurinn á fætur öðrum, með sérfræðiþekkingu og kunnáttu og reynslu á þessum sviðum, og andmælir þessum áformum. Þannig að þetta er afar sérkennilegt. Miðflokkurinn mun aldrei samþykkja svona fjáraustur. Miðflokkurinn mun aldrei samþykkja að eignir ríkisins séu fordjarfaðar með þessum hætti, að þeim sé kastað í þessa botnlausu hít.

Herra forseti. Ég bið um að verða settur á mælendaskrá öðru sinni.