150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum enn samgönguáætlun og sérstaklega höfum við beint sjónum okkar, og höfum svo sem gert það áður, að borgarlínu. En mig langar að koma inn á mál sem ég hef hreyft við einu sinni eða tvisvar og það snýr að þeim öryggishagsmunum sem felast í því, ekki bara fyrir borgarbúa í Reykjavík heldur líka íbúa nágrannasveitarfélaganna, að akstur í gegnum borgina sé greiður ef til þess kemur að við þurfum að tæma suðvesturhornið, t.d. í ljósi yfirvofandi hamfara eða ef eitthvað slíkt á sér stað. Í dag er það mjög erfitt vegna þrenginga og takmarkana. Og því miður sýnist manni, eftir að hafa kynnt sér þessa borgarlínu betur og lesið þá gagnrýni sem hefur komið fram, að þvert á móti sé verið að takmarka enn frekar þann möguleika að fólk geti komist hratt og örugglega út úr borginni þegar það þarf á því að halda með borgarlínu og þessum meintu risavögnum og slíku sem áform virðast uppi um.

Því er full ástæða til að velta fyrir sér hvort forsvarsmenn sveitarfélaganna í kringum höfuðborgina hafi á einhverjum tímapunkti rætt það við höfuðborgina að flýta þyrfti framkvæmdum innan borgarmarkanna til að þessar leiðir verði greiðar. Það er verið að bæta flutningsgetu gatna í nágrannasveitarfélögum eins og t.d. í Hafnarfirði. Það verkefni er ágætlega á veg komið en mætti vitanlega eins og allt annað ganga hraðar. Það er alla vega á áætlun. En svo myndast tappinn og stoppið þegar menn eru komnir inn í borgina og það er eitthvað sem við þurfum að skoða vandlega og ég hefði viljað að menn gerðu svolítið meira úr. Í ljósi þess að við búum á þessari frábæru eyju okkar þurfa menn að gera ráð fyrir því að hér geta orðið alls konar hamfarir sem aðrir búa ekki við og því þurfa samgöngumannvirki að taka mið af því en gera það vitanlega ekki eins og staðan er í dag.

Svo gæti flugvöllurinn líka skipt máli. Ef það á að koma fólki á svæðinu burt fljúgandi er vafamál hvort það sé sniðugt að fara með flugvöllinn eitthvert langt upp í uppsveitir höfuðborgarsvæðisins þar sem jafnvel yrði fyrr lokað fyrir flug en hér við sjóinn. Auðvitað eru þetta allt vangaveltur en mér finnst ástæða til að nefna þetta í ljósi þess að athyglin virðist fyrst og fremst vera á borgarlínu í samgöngumálum höfuðborgarinnar.

Hér hefur verið komið inn á viðvaranir eða orð nokkurra þingmanna og sér í lagi höfum við nú vitnað til skynsamlegrar ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen, en því miður heyrist lítið frá öðrum þingmönnum í þá átt sem Sigríður talar og hún virðist kannski hálfeinangruð í sínum þingflokki þegar kemur að þessari skoðun á samgöngumálum. En það er ljóst að oddvitinn í borginni virðist vera á sömu línu og 1. þm. Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Það er sérkennilegt að ekki skuli vera meiri umræða um þetta mál af hálfu stjórnarliða, að þeir leggi ekki eitthvað á sig til að verja þetta mannvirki sem fær sérstakan kafla í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þar er fjallað um höfuðborgarsáttmálann, um samvinnuverkefni og ákveðin atriði tengd borgarlínu. Það er mjög sérstakt að það ágæta fólk sem hefur unnið sína vinnu mjög vel í nefndinni skuli ekki koma meira upp og verja þá niðurstöðu að einblína á þessa borgarlínu.

Það er alveg ljóst að tölurnar eru eitthvað á reiki því að hv. þingmaður meiri hlutans talaði um 50 milljarða við borgarlínu. Í Morgunblaðinu í dag talar oddviti Sjálfstæðismanna um 70 milljarða. Þar munar 20 milljörðum og hægt að gera ýmislegt fyrir þá í rekstri ríkissjóðs. Þannig að ég held, virðulegi forseti, að það þurfi að skoða þetta mál miklu, miklu betur, og hafa varnagla gagnvart ríkissjóði víðar í málinu. (Forseti hringir.) Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.