150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við erum að ræða samgönguáætlun og stærsta einstaka verkefnið er hin svokallaða borgarlína. Það liggur fyrir að það fyrirbæri, svo notað sé orðalag hv. þm. Sigríðar Á. Andersen um hina svokölluðu borgarlínu, er reist á algerlega óraunhæfum fjárhagslegum grundvelli og er, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rakti hér í síðustu ræðu, fallið til þess að þrengja að umferð í borginni enn frekar en menn búa núna við. Fyrir það á almenningur að greiða með alls konar gjöldum og verja á fimm tugum milljarða af opinberu fé til verkefnisins. Inn í það á að selja a.m.k. Keldnalandið, því það er hér í þingskjölum og eins og hv. þingmaður nefndi hefur verið rætt um að setja aðrar mjög verðmætar eignir inn í þetta eins og Íslandsbanka.

Það er orðið algerlega ljóst, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn, sem fer með ríkisfjármál, það ábyrgðarmikla hlutverk, stendur að þessu frumvarpi en flokkurinn er ekki heill og óskiptur á bak við það. Það kom glögglega fram í ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen sem var vel flutt og hin skörulegasta og þingmaðurinn lá ekki á skoðunum sínum. Það hefur heldur ekki gert mikilvirkur höfundur í svokölluðum bloggheimum, Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður og ráðherra flokksins. Loks vil ég nefna ritstjóra Morgunblaðsins, fyrrum forsætisráðherra og borgarstjóra í Reykjavík. Hann ritar einmitt í dag leiðara í Morgunblaðið, sem ég gat um í fyrri ræðu, undir yfirskriftinni: Mikilvægar umræður um samgöngumál, og er auðvitað að vísa til þeirra umræðna sem fara fram á Alþingi þessa dagana um þetta mál.

Ég vil, með leyfi forseta, vísa nánar til þessarar greinar en áður ég geri það vil ég segja um þann klofning sem augljós er í Sjálfstæðisflokknum að sem betur fer er þar enn fólk sem lætur ekki bjóða sér annan eins málatilbúnað og hér er uppi. Þetta er forkastanleg meðferð á opinberu fé og þessar ráðagerðir eru óverjandi frá sjónarmiði umferðarinnar. Hafa ýmsir málsmetandi menn, sérfræðingar, prófessorar, verkfræðingar og fleiri, farið um það mjög hörðum orðum, til að mynda einn umferðarverkfræðingur sem benti á það í grein í Kjarnanum á liðnu ári að ná mætti markmiðunum sem borgarlínunni væri ætlað að ná varðandi almenningssamgöngur með því að verja til þeirra nokkrum milljörðum. Menn geta borið saman nokkra milljarða annars vegar og 50 milljarða hins vegar, auk Keldnalandsins og kannski Íslandsbanka.

Í ritstjórnargrein í Morgunblaðinu í dag er vitnað í nefndarálit 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, en hann skipa hv. þm. Bergþór Ólason, sem er formaður nefndarinnar, og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason. Í greininni segir að í minnihlutaálitinu sé komið inn á samgöngusáttmálann sem ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu sín á milli. Þar segir áfram:

„Sá sáttmáli snýst að stórum hluta um borgarlínu en svarar til dæmis ekki spurningunni um hvernig, hvenær eða jafnvel hvort Sundabraut verður að veruleika.

Um sáttmálann og borgarlínu segja Bergþór og Karl Gauti m.a.: „Annar minni hluti gerir alvarlegar athugasemdir við áætlanir um þau framlög til samgöngusáttmálans sem snúa að borgarlínu. Þrátt fyrir að vilja greiða fyrir fjölbreyttum samgönguháttum, þar á meðal almenningssamgöngum, telur 2. minni hluti ekki verjandi að ætla áformum um borgarlínu svo mikilvægan sess að ríki og sveitarfélög verji tæplega 50 milljörðum kr. fram til ársins 2033 til borgarlínu. Ekki hefur verið sýnt fram á að ekki sé unnt að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með borgarlínu með hagkvæmari hætti en að verja til þess (Forseti hringir.) 50 milljörðum kr. á umræddu tímabili. Engin haldbær (Forseti hringir.) kostnaðaráætlun liggur fyrir um framkvæmdir vegna borgarlínu auk þess sem arðsemismat og rekstraráætlun (Forseti hringir.) liggja ekki fyrir, og óljóst hver á að bera kostnað af rekstrinum að framkvæmdum loknum.““

Herra forseti. (Forseti hringir.) Ég bið um að verða settur á mælendaskrá til að ræða þetta mál áfram.