150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:02]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið það að sér á þessu kjörtímabili að bera ábyrgð á ríkisfjármálunum. Ekki er hægt að segja að það hafi að öllu leyti misfarist, síður en svo. Ýmislegt hefur verið vel gert. En í þessu máli er gengið fram, leyfi ég mér að segja, af fullkomnu ábyrgðarleysi. Í samgöngumálum liggur fyrir að stærsta verkefnið sem á að ráðast í, þegar við blasir mikil framkvæmdaþörf í vegamálum, samgöngumálum, innviðamálum um land allt, er borgarlína. Um borgarlínu farast hv. þm. Sigríði Andersen svo orð í ræðu fyrr í þessari umræðu að þessi svokallaða borgarlína sé algjörlega óútfært fyrirbæri og að ekkert sé hönd á festandi hvað hana varðar.

Það liggur fyrir að margir málsmetandi menn í Sjálfstæðisflokknum, utan þings, hafa lagst gegn þessu. Ekki þarf að nefna borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ég nefni sérstaklega grein oddvita flokksins í Reykjavík, Eyþórs Arnalds, í Morgunblaðinu í dag. Ég nefni skrif á vefsíðu Björns Bjarnasonar sem er lesin af mörgum. Og að sjálfsögðu nefni ég Morgunblaðið sem hefur fjallað um þetta margoft. Það er auðvitað einfaldast að fara yfir ritstjórnargrein í blaðinu í dag þar sem fjallað er um borgarlínu. Leiðarahöfundur, ritstjóri blaðsins, sem er fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og borgarstjóri, forsætisráðherra lengst allra manna, lýkur ritstjórnargrein sinni með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Það er dapurlegt þegar jafn mörg brýn verkefni í samgöngumálum og raun ber vitni liggja fyrir um allt land, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu, skuli þingið nú vinna að því að sóa tugum milljarða, eða jafnvel enn hærri fjárhæðum, í framkvæmd sem í besta falli gerir ekkert gagn en verður að líkindum til að tefja umferð á svæðinu enn frekar.“

Herra forseti. Ég skora á hv. Sjálfstæðismenn að draga þetta mál til baka. Þetta er þeim sjálfum, leyfi ég mér að segja, til vansa. Þeir geta ekki verið þekktir fyrir að ganga svona fram þegar ríkisfjármál og samgöngumál eru annars vegar.

Herra forseti. Það er merk grein í sama blaði í dag undir yfirskriftinni Borgarlínan. Höfundur hennar er fyrrum prófessor í verkfræði, Jónas Elíasson, sem hefur ítrekað fjallað um borgarlínu og með mjög neikvæðum hætti. Hann telur hana engan kost. Hann segir, með leyfi forseta:

„Aðaltilgangur samgönguáætlunar í dag er að bæta þjóðvegakerfi landsins svo að atvinnuvegir og efnahagur njóti góðs af. Að stífla þessa vegi á höfuðborgarsvæðinu ætti að kosta það að Alþingi tæki skipulagsréttinn af viðkomandi sveitarfélagi en verðlauni ekki þessa viðleitni með sérstöku framlagi á samgönguáætlun.

Þessi orð höfundar eru til marks um hvað hann lítur þetta alvarlegum augum. Hann bætir við:

„Ekki er fyrirsjáanlegt hvar slíkt athæfi tekur enda. Fyrst veitir Alþingi fjármagn í að byggja þessa vegi, svo meira fjármagn í að stífla þá aftur.“

Það væri vert að fjalla nánar um þessa grein Jónasar og ég óska eftir því að forseti skrái mig að nýju á mælendaskrá.