150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið sem var kannski meira boð um það að veita aðstoð við ræðuskrif, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Ég afþakka þá aðstoð kurteisislega. Ég býð hv. þingmanni, ef hann telur að ég hafi ekki verið nógu kjarnyrtur í þessum 30 ræðum sem ég hef flutt hér, að fara vandlega yfir það og benda mér á hvort ég hafi einhvern tímann flutt sömu ræðuna tvisvar. Hefur hv. þingmaður kannað það? Nei, hann hefur ekki kannað það. Ég hef ekki gert það.

Þetta er samgönguáætlun. Þetta er stórt og mikið verkefni og ég held að ég hafi eytt hátt í 20 ræðum í að ræða hin ýmsu samgönguverkefni og sérstaklega í Suðurkjördæmi, mínu kjördæmi, vegna þess að þar eru fjölmörg verkefni sem er vert að minnast á. Það er eðlilegt að þingmenn minnist á þau verkefni sem standa þeim kannski næst, bendi á það sem má betur fara í kjördæminu o.s.frv., og ég held að ég hafi því komið því nokkuð vel til skila. Þegar ég hafði nokkurn veginn lokið þeirri umfjöllun fór ég að fjalla um borgarlínuna vegna þess að það er eitt umfangsmesta verkefni í samgönguáætlun og sú kostnaðarsamasta fyrir ríkissjóð. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt að fara nákvæmlega í saumana á því verkefni og þar sem ég sit í fjárlaganefnd hef ég miklar áhyggjur af þeim verulega kostnaði sem ríkissjóður þarf að fara í í þessu verkefni einu og sér á sama tíma og hallinn á ríkissjóði er kominn í 300 milljarða. Við sjáum fram á mikinn niðurskurð og hagræðingu og þá hef ég miklar áhyggjur af því að við ætlum hér, fjárveitingavaldið eða meiri hlutinn og ríkisstjórnin, að fara að samþykkja útgjöld upp á svo háa upphæð, tugi milljarða, í þetta verkefni. (Forseti hringir.) Ég held, hv. þingmaður, að ég hafi bara nýtt þennan tíma vel og mun halda því áfram.