150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson flutti hér ágæta ræðu og fór m.a. aðeins í fjármál Reykjavíkurborgar og ætlaði að fara betur yfir þau á eftir. Það er áhugavert, ekki síst í ljósi þess að oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg varaði einmitt við því í Morgunblaðinu í dag að of mikil áhætta væri tekin með fjárhag borgarinnar í tengslum við borgarlínuverkefnið.

Í nefndarálitum, a.m.k. nefndaráliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, kemur fram að fjárfestingarþörfin í vegakerfinu sé talin vera nálægt 400 milljörðum kr. og muni aukast á framkvæmdatíma áætlunarinnar. Þarna sjáum við gríðarlega háar tölur, herra forseti, 400 milljarða kr. Á sama tíma og við höfum ekki fundið út úr því hvernig við ætlum að fjármagna allar þessar fjárfestingar í vegakerfinu í heild stendur til að fara í áætlun um framkvæmd sem er ekki búið að benda á að hafi einhverja endanlega tölu.

Það er samdóma álit allra, held ég, að það þurfi að herða á framkvæmdum í vegakerfinu, auka, bæta í og vinna hraðar að þeim. Enn eru víða einbreiðar brýr. Við erum með fjölfarna vegi sem eru þó ekki hluti af hringveginum sem eru enn malarvegir en mikið eknir og kannski lykilvegir í þeim byggðarlögum. Við erum með umferðarteppur í Reykjavík sem kalla á mislæg gatnamót, ljósastýringu o.s.frv. Allt er þetta til þess fallið að auka öryggi og greiða úr samgöngum og er a.m.k. hluti af því inni í þessari 400 milljarða tölu sem er sett fram. Það er því áhyggjuefni að menn skuli ætla að hafa ríkissjóð nokkuð opinn á næstu árum fyrir almenningssamgöngurnar sem ég geri ekki lítið úr að eru mikilvægar líka, auðvitað er ákveðinn hópur fólks sem kýs að nota almenningssamgöngur eða getur ekki annað en notað þær. Því þarf að huga vel að samgöngum fyrir það ágæta fólk einnig. Ég held hins vegar að það sé ekki gert með þessari borgarlínu sem hér er mikið rætt um. Það er nauðsynlegt að tíðni ferða aukist, að vagnarnir stoppi á stöðum sem eru vel skilgreindir og slíkt og ég held að það væri nær að bæta þar úr og kenna fólki að nota þennan samgöngumáta. Seinna meir er kannski hægt að fara í þær miklu hugmyndir sem hér er verið að ræða um, eða einhverjar útfærslur mögulega, ef aðstæður verða þá til þess en þær eru það að mínu viti ekki í dag, aðallega vegna þess að bæði ríkissjóður og sveitarfélögin mörg hver, ekki síst Reykjavíkurborg, eru ekki í stakk búin til að taka á sig þær skuldbindingar sem þarna er um að ræða.

Í áliti 2. minni hluta er m.a. lögð áhersla á að verkefnum sé forgangsraðað með ákveðnum hætti þar sem tekið er tillit til hagkvæmni, byggðasjónarmiða, jafnræðis og öryggis. Allt skiptir þetta mjög miklu máli því að við vitum að samgöngur eru lykilatriði fyrir mjög margar byggðir, hvort sem það er varðandi aðföng eða til að koma frá sér framleiðsluvöru eða hreinlega fyrir íbúana til að geta sótt þjónustu og annað sem er ekki veitt í heimabyggð o.s.frv. Á höfuðborgarsvæðinu og í Suðvesturkjördæmi þurfum við að huga að því hvernig íbúar þessara sveitarfélaga, sem vaxa mjög hratt, geti með góðu móti komist milli áfangastaða, til og úr vinnu, í tómstundir og annað. Á meðan fókusinn hjá sveitarfélögunum er á almenningssamgöngurnar einhliða eins og hér er gert, með litlum framtíðarframkvæmdum að öðru leyti, er ég ekki viss um að það takist eða sé nógu vel ígrunduð forgangsröðun. — Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.