150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég hef aðeins rætt um borgarlínuna svokölluðu í síðustu ræðum. Ástæðan fyrir því að ég taldi tilefni til að fara yfir það í tiltölulega einföldu og stuttu máli var sú að enn heyrum við allsérkennilegar yfirlýsingar frá stjórnarliðum og öðrum úr og borgarstjórnarmeirihlutanum sem eiga flokka eða fulltrúa hér á þingi um umræðuna sem á sér stað hérna. Ég taldi því rétt að árétta í hverju helstu áhyggjur okkar fælust.

Nú ætla ég að ræða aðeins um nágrannasveitarfélög Reykjavíkur. Þótt Reykjavíkurborg, eða borgarstjórnarmeirihlutinn, hafi augljóslega verið leiðandi í þessu verkefni öllu, og í því að flækja ríkisvaldið í þennan vef, ef svo má segja, fylgja nokkur sveitarfélög með. Margir hafa velt fyrir sér hvernig á því standi að hin sveitarfélögin hafi látið hafa sig út í þetta. Ef vel er að gáð hafa fengist skýringar á því, meðal annars í viðtölum við einhverja af þessum bæjarstjórum. Ekki er hægt að draga aðra ályktun af ummælum þeirra og aðkomu að þessu máli en að þeir líti svo á að nauðsynlegar og aðkallandi úrbætur í samgöngumálum í sveitarfélögum þeirra megi ekki bíða lengur. Því sé býsna mikið á sig leggjandi til að framkvæmdir fari af stað. Eins og ég hef rakið hér áður hefur verið framkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu í áratug. Það helgaðist af því að ríkið ákvað að styrkja almenningssamgöngur í tilraunaverkefni í tíu ár en fara á sama tíma í framkvæmdastopp á öðrum samgönguverkefnum.

Auðvitað átta íbúar þessara byggðarlaga sig á því að þetta er ekki raunhæft og nauðsynlegt er að fara í framkvæmdirnar sem var frestað. En hvers vegna í ósköpunum tekur ríkið þátt í að stilla þessum sveitarfélögum upp við vegg með því að gera þátttöku ríkisins í borgarlínu að einhvers konar skilyrði fyrir því að farið verði í öll hin verkefnin sem ætti að vera löngu búið að ráðast í og eru að langmestu leyti fjármögnuð af ríkinu hvort eð er? Hvers vegna ákvað ríkisvaldið ekki bara að drífa í þessu og klára öll verkefnin sem hafa beðið?

Hluta skýringarinnar má kannski finna í samkomulagi sem gert var milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 1998, ef ég man rétt. Það er einmitt sama ár og skipulagsvaldið var fært nánast alfarið til sveitarfélaganna. Þá var búið til svokallað svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og ég verð að viðurkenna, frú forseti, að á sínum tíma taldi ég mjög skynsamlegt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sammæltust um skipulag fyrir höfuðborgarsvæðið þannig að hægt væri að ná ákveðinni hagkvæmni í vegtengingum og fleiru sem sveitarfélögin þurfa að hafa samstarf um. En svo kom á daginn að samkomulagið var tekið í nokkurs konar herkví af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík. Hann notaði heildarsamkomulag um skipulag á höfuðborgarsvæðinu til að knýja fram vilja sinn gagnvart nágrannasveitarfélögunum.

Það birtist glögglega nú, meira en 20 árum síðar. Svona vinnur kerfið, frú forseti. Það hefur tíma í svona hluti. 20 árum síðar birtist það í því að sveitarfélög sem ættu að vera löngu búin að fá úrbætur í samgöngumálum sínum þurfa að fallast á að fjármagna borgarlínu til að ráðist verði í þær framkvæmdir sem raunverulega er þörf fyrir. Auðvitað er það auðveldara fyrir þessi sveitarfélög þegar þau þurfa ekki að borga borgarlínuna nema að mjög litlu leyti. Það er enn óleyst ráðgáta (Forseti hringir.) hvernig stóð á því að ríkið ákvað að taka einfaldlega upp reikninginn, (Forseti hringir.) fyrir kosningaloforð Samfylkingarinnar. (Forseti hringir.) Nú er ég reyndar bara að leiða inn í umræðuna, frú forseti, (Forseti hringir.) og bið þess vegna um að verða settur aftur á mælendaskrá.