150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég held áfram með plaggið sem fjallar um heildarstefnu í almenningssamgöngum á milli byggða. Ég var komin að meginmarkmiði 1 sem fjallar um þjónustu samgöngu- og fjarskiptakerfa, að það mæti þörfum samfélagsins. Það stendur hér að það þurfi að uppfæra reglulega öryggisáætlanir í samgöngum og fjarskiptum og að sá árangur þeirra verði mældur, þetta er svona í restina á þessum hluta. Í markmiði 2 er fjallað um sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um allt á Íslandi og ég ætla að lesa það, með leyfi forseta:

„Meginmarkmiðið felur meðal annars í sér eftirfarandi: Við forgangsröðun aðgerða verði tekið tillit til óska sveitarstjórna og sóknaráætlana landshluta. Skipulag og forgangsröðun samgangna og fjarskipta um land allt taki tillit til umhverfisgæða og lýðheilsu. Uppbyggingu heildstæðs almenningssamgöngukerfis um allt land. Sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Uppbygging heildstæðs almenningssamgöngukerfis um allt land er þannig hluti af meginmarkmiði um sjálfbærar byggðir um land allt um leið og það stuðlar að framgangi flestra hinna markmiðanna.“

Þetta hangir allt saman og skal horfa á sem eina heild.

Í kaflanum um markmið segir enn sem fyrr að það sé að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Það er aðeins fjallað um að það séu áherslur sem eru tengdar við lögbundin markmið samgönguáætlunar, þ.e. greiðar samgöngur, eins og ég nefndi áðan, sem og öruggar, hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur og jákvæð byggðaþróun. Þetta eru hinar fimm meginstoðir.

Ef farið er í kaflann um greiðar samgöngur eru almenningssamgöngur augljóslega mikilvægur þáttur í að stuðla að greiðum samgöngum. Talað er um samþættingu ferðamátanna þriggja og sett upp lítil tafla sem tekur til fjölda flughreyfinga í áætlunar- og leiguflugi innan lands og neðanmáls er skilgreining á því hvað flughreyfing er. Hver leggur í innanlandsflugi er tvöfaldur á við millilandaflug, sem sagt flugtak og lending, segir hér. Staðan 2018 var 31.852 hreyfingar, flugtak og lending. Það er æskileg staða að 2024 verði þær komnar í 37.500, sem er töluverð aukning. Svo er einnig tiltekinn fjöldi ferða með ferjum. Þær voru 5.000 árið 2018 og 2024 er talað að um þær verði 5.100. Síðan er það fjöldi ferða með almenningsvögnum. Fjöldinn var 79.000 vorið 2018 og er ætlunin að hann verði 84.000 árið 2024. Það er spurning hvað sé talið í þessu, hvort það séu innstig í hvert sinn eða ef maður fer með landsbyggðarstrætó til höfuðborgarinnar og held áfram með borgarstrætó, hvort það sé eitt innstig eða hvort það flokkist sem tvö. Það eru ýmis álitamál. (Forseti hringir.)

Ég bið forseta vinsamlegast að setja mig aftur á mælendaskrá.