150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:25]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég er komin að kaflanum um markmið 4 um umhverfislega sjálfbærar almenningssamgöngur í plagginu Ferðumst saman — Heildarstefna í almenningssamgöngum á milli byggða sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gaf út í október 2019. Þar eru tveir punktar sem skipta kannski máli. Til þess að ná því markmiði voru ákveðnar áherslur settar fram. Í fyrsta lagi að stuðla að því að farartæki í almenningssamgöngukerfinu séu eins vistvæn og kostur er og að kanna skuli möguleika á notkun vistvænna, innlendra orkugjafa. Í öðru lagi á að bæta innviði til notkunar vistvænna orkugjafa í almenningssamgöngum og styðja við að ný umhverfisvæn tækni ryðji sér til rúms. Því næst eru áhrifin á íslenskt samfélag metin og þar er meginstefið upptalning á því sem kaflinn fjallar um.

Í næsta kafla er fjallað um markmið 5 um jákvæða byggðaþróun og það skiptir kannski mestu máli í samhengi hlutanna. Þar segir að almenningssamgöngur milli byggða séu lykilþáttur í að bæta lífskjör og auka aðgengi allra, þær tengi saman byggðir og styrki vinnu- og skólasóknarsvæði og í þriðja lagi séu þær einnig mikilvægar fyrir bætt aðgengi að miðlægri þjónustu sem er að finna á höfuðborgarsvæðinu. Ég staldra alltaf við þarna, við þessa góðu töflu um jákvæða byggðaþróun. Samkvæmt töflunni var fjöldi farþega með innanlandsflugi 370.000 árið 2018, æskileg staða árið 2024 er 440.000 farþegar. Fjöldi farþega með ferjum var árið 2018 450.000, æskilegt viðmið fyrir árið 2024 er 520.000 farþegar. Fjöldi farþega með almenningsvögnum sem reknir eru með beinum opinberum rekstrarstyrkjum, það er tiltekið hér, var 400.000 árið 2018, æskileg staða árið 2024 er 480.000 farþegar.

Helstu áherslur til þess að ná fyrrgreindum markmiðum eru í fyrsta lagi að heildstætt leiðakerfi verði endurskoðað með samræmdum viðmiðum um þjónustuna, að litið verði til þátta eins og íbúaþéttleika og notkunar og að vissulega þurfi að horfa til svæðisbundinna þarfa. Í öðru lagi þurfi að leita leiða til þess að sjónarmið notenda og heimamanna fái notið sín til að tryggja gæði leiðakerfisins til að ná fram svokallaðri samnýtingu og samtengingu við aðra þjónustu, svo sem skólaakstur, vinnustaðaakstur og almenningssamgöngukerfi innan sveitarfélaga. Í þriðja lagi verði greint hvernig almenningssamgöngur geti styrkt vinnu- og skólasóknarsvæði með það fyrir augum að fjölga þeim sem nýta sér almenningsamgöngur og í fjórða lagi þurfi að greina kosti þess að lykilleiðir í almenningssamgöngukerfinu verði hluti af grunnneti samgangna.

Liður í því að búsetuskilyrði teljist ásættanleg er auðvitað að tryggja gott aðgengi að opinberri þjónustu. (Forseti hringir.) — Ég bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.