150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það ætti að vera sjálfsagt mál og eiginlega bara sjálfgert að falla frá hugmyndum um borgarlínu þegar enginn þeirra aðila sem að málinu koma, hvorki ríkissjóður né sveitarfélögin sem hlut eiga að máli, hefur fjárhagslega burði til að ráðast í verkefnið. Það eru gjörbreyttar aðstæður í efnahagsmálum. Staða ríkissjóðs hefur versnað að mun. Það er náttúrlega alveg fráleitt að gera því skóna að ríkissjóður leggi 50 milljarða í þetta tiltekna verkefni þegar svo mörg önnur brýn og aðkallandi verkefni og framkvæmdir blasa við.

Miðað við umsagnir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar eru sveitarfélögin mjög báglega stödd í fjárhagslegu tilliti. Það er til að mynda rakið í umsögn við þingmál, aðgerðapakka tvö og frumvarp til fjáraukalaga. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er kafli sem fjallar um áhrif Covid-19 kreppunnar á sveitarfélögin, eins og það er orðað. Þar er því lýst að sveitarfélögin muni verða fyrir miklu tekjufalli og stórfelldri útgjaldaaukningu vegna efnahagsáfallsins sem nú ríður yfir. Segir áfram, með leyfi forseta:

„Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt fram drög að greiningu á fjárhagsvanda sveitarfélaga á því svæði. Niðurstaðan er að tekjufall og útgjaldaaukning sveitarfélaga svari til 137 þúsund króna á hvern íbúa eða um 50 milljarða króna fyrir árin 2020 og 2021.“

Herra forseti. 50 milljarða króna högg á sveitarfélögin fyrir þessi tvö ár, 2020 og 2021. Það segir sig alveg sjálft að sveitarfélögin hafa enga burði fyrir sitt leyti til að ráðast í þessa borgarlínu. Og staða ríkissjóðs er náttúrlega ekki þannig að það sé með nokkrum hætti verjandi að hann setji borgarlínu á oddinn og verji til þess verkefnis 50 milljörðum króna, verkefnis sem er algerlega ósannað að þjóni tilgangi sínum. Þvert á móti liggur fyrir það álit samgönguverkfræðings að hægt sé að ná markmiðum varðandi almenningssamgöngur með því að verja til verkefnisins nokkrum milljörðum, eins og hann orðaði það í grein í Kjarnanum. En þarna er verið að tala um 50 milljarða úr ríkissjóði þannig að þetta mál er í eðli sínu sjálfdautt.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að sveitarfélögin eigi mikið undir aðgerðum ríkisins á fjölmörgum sviðum. Þar segir áfram, með leyfi forseta:

„… óvissa um aðgerðir ríkisins á næstu mánuðum hefur í för með sér að erfitt er að meta endanleg áhrif Covid-19 kreppunnar á sveitarfélögin.“

Í þessu sambandi er rétt að halda því til haga að skuldir Reykjavíkurborgar eru 116 milljarðar en Reykjavíkursamstæðan öll skuldar 340 milljarða.

Það blæs auðvitað ekki byrlega. Aðilar í þessari stöðu hafa náttúrlega enga burði eða getu til að ráðast í verkefni af því tagi sem hér um ræðir. Það er mjög athyglisvert þar sem segir að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi ályktað að mikilvægt sé að ríkissjóður komi að málum með fjölbreyttum aðgerðum. Og ekki bara það heldur segir svo, með leyfi forseta:

„… og með beinum fjárhagslegum stuðningi til að verja þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna á landinu öllu.“

Það kemur líka fram í umsögn Reykjavíkurborgar að sveitarfélögin eiga sum hver ekki, og alls ekki Reykjavíkurborg, fyrir útgjöldum vegna lögbundinna verkefna. Þessar umsagnir eru allrar athygli verðar og þarf að ræða frekar og ég óska eftir því að vera skráður að nýju á mælendaskrá.