150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og ég hafði boðað hyggst ég nú fjalla um Sundabraut sem á sér mjög langa sögu og hefur mætt ýmsum hindrunum, ekki síst frá núverandi meiri hluta í Reykjavíkurborg sem virðist finna ýmsar aðferðir til að þvælast fyrir því að af þessu verkefni verði, tefja það og koma í veg fyrir þá kosti sem þar hafa helst verið til skoðunar.

Ég held að það sé best að byrja á því að líta til sögunnar svo við áttum okkur betur á þeirri stöðu sem við erum í núna varðandi Sundabrautarverkefnið. Þar ætla ég að líta m.a. til greinar sem skrifuð var í Morgunblaðið af Birni Jóhanni Björnssyni árið 2015 og bar yfirskriftina Sundabrautin ofan í skúffu. Þetta er mjög áhugaverð grein og fer, í tiltölulega stuttu máli þó, yfir sögu þess vandræðagangs sem hefur svo leitt að þeim stað sem við erum á núna varðandi Sundabrautina. Vegna þess hversu vel þetta er skrifað þá held ég að færi best á því að ég vitnaði í klausu úr greininni sem ber millifyrirsögnina Fyrst í skipulag árið 1984. Þar segir, með leyfi forseta:

„Rúm 30 ár eru síðan Sundabraut fór fyrst á skipulagsáætlun, þegar hún var sett í aðalskipulag Reykjavíkur árið 1984. Síðan þá hefur framkvæmdin nokkrum sinnum komið til tals og skýrslur verið unnar af hálfu Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. Ekki verður öll sagan rakin hér en á vormánuðum 2004 var gefin út matsskýrsla. Í nóvember sama ár felldi Skipulagsstofnun úrskurð sinn en þar var fallist á alla valkosti nema þann að leggja Sundabraut á fyllingu fyrir Gufuneshöfðann. Umhverfisráðuneytið staðfesti síðan úrskurð Skipulagsstofnunar í nóvember 2005, með ákveðnum skilyrðum. Í framhaldinu var farið í vinnu við matsskýrslu fyrir 1. áfanga Sundabrautar og hún gefin út í mars árið 2008.“

Ég ítreka það, herra forseti, sem hér kemur fram. Þetta var samþykkt árið 2005 og matsskýrsla fyrsta áfanga tilbúin árið 2008, það eru rúm tólf ár síðan.

„Þar var kynntur nýr valkostur; að leggja brautina í göng fyrsta kaflann úr borginni, Sundagöng, eða allt frá Laugarnesi í vestri að Gufunesi í austri með því að þvera Kleppsvík. Áætlaður heildarkostnaður Sundabrautar, samkvæmt þessari matsskýrslu, var um 24 milljarðar króna, sem í dag leggst á tæplega 36 milljarða að teknu tilliti til verðlagsþróunar.“

Setjum þetta nú í samhengi við borgarlínuna. Kostnaðurinn bara við framkvæmdina er áætlaður 80 milljarðar og ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það muni fara langt fram úr áætlun. Gert er ráð fyrir því, jafnvel samkvæmt áætlun, að borgarlínan kosti meira en Sundabrautin samkvæmt þessu. Hugsa sér það, hvað þá með rekstrarkostnaðinn sem á eftir að bætast þarna ofan á til allrar framtíðar? Það er ólíkt Sundabrautinni þar sem rekstrarkostnaður verður ekki verulegur en hins vegar eru miklar líkur á að hún skapi tekjur, svo ekki sé minnst á þjóðhagslega hagkvæmni hennar, sem er gríðarlega mikil.

Þessi samanburður er býsna sláandi, annars vegar forgangsröðunin, að setja allt þetta í borgarlínu, en reyna á sama tíma með öllum tiltækum ráðum að þvælast fyrir þessari hagkvæmu (Forseti hringir.) og löngu tímabæru framkvæmd. En nú er ég rétt að hefja yfirferð mína um Sundabrautina, margt er þar ekki fram komið og því bið ég hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.