150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:18]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Af því að ég var í síðustu ræðu staddur í goðafræði langar mig að komast aftur niður á jörðina. Þá fer hugur minn upp í Borgarfjörð og á Vesturland, sem stendur hjarta mínu nær og þar sem rætur mínar liggja, og vil ég velta upp umsögn frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.

Mig langar, herra forseti, að byrja á því að lesa upp úr niðurlagi umsagnarinnar vegna þess að mér finnst, eins og ég hef minnst á í fleiri ræðum, lítillæti í þessari umsögn. Þó er komið að einhverjum þolmörkum, að ekki verði lengur unað við litlar samgöngubætur. Niðurlagið er svona:

„Það verður að segjast eins og er að ástandi vega á Vesturlandi hefur hrakað undanfarin tíu ár og óánægja íbúa með vegakerfið aukist mjög, sem meðal annars kemur fram í íbúakönnun Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi frá árinu 2016. Frá árinu 2008 hefur lítið verið framkvæmt og Vestlendingar upplifa það að landshlutinn sitji á hakanum. Vegna þessa horfðu margir til þess að í nýrri samgönguáætlun yrðu kynntar tillögur að umtalsverðum vegabótum. Vestlendingar hafa um árabil barist fyrir því að farið yrði í tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og því er það fagnaðarefni að loksins munu þær framkvæmdir hefjast. Það er hins vegar afar erfitt að horfa til þess að á næstu fimm árum verði aðeins framkvæmt fyrir rúman milljarð á Vesturlandi og engin landshluti býr við lægri fjárveitingar. Því leggja Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi þunga áherslu á að auknu fjármagni verði veitt til hönnunar vegar um Skógarströnd og Uxahryggi þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir við þá sem fyrst og allra helst eigi síðar en 2023 og hönnun á tvöföldun Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum að Borgarnesi verði tilbúin í lok fyrsta tímabils þannig að hægt sé hefja framkvæmdir árið 2025. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa áður lagt til að ráðist verði í sérstakt átak við að leggja bundið slitlag á tengivegi og fjárveitingar til þess verkefnis tvöfaldaðar.“

Hæstv. forseti. Þarna eru talin til fjögur meginatriði. Í fyrsta lagi tímasetning framkvæmda við Skógarstrandarveg, í öðru lagi seinkun framkvæmda við Uxahryggi, í þriðja lagi of lágar fjárveitingar við lagningu slitlags á tengivegi og í fjórða lagi að aukið fjármagn verði veitt til hönnunar á vegum á Vesturlandi. Allt eru þetta verkefni sem Vestlendingar leggja þunga áherslu á í áðurnefndri samgönguáætlun Vesturlands.

Fremst í umsögninni er vegurinn um Skógarströnd en samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum er hann einn fárra kafla í stofnvegakerfi Íslands sem ekki hefur verið lagður bundnu slitlagi. Hann er einn tveggja stofnvega á Íslandi sem enn þá er malarvegur og sætir það furðu, og hefur það komið fram áður, að ekkert skuli hafa skeð í þessu í segja má tugi ára. Tenging á milli Snæfellsness og Dala er þar af leiðandi á þessum gamla malarvegi þar sem mikið er um slys og annað slíkt.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi leggja þunga áherslu á að framkvæmdum um Skógarstrandarveg verði hraðað, að hönnun vegarins verði lokið á fyrsta tímabili samgönguáætlunarinnar og jafnframt verði hægt að hefja framkvæmdir á fyrsta tímabili samgönguáætlunar en ekki síðar en það. — Hæstv. forseti. Ég óska eftir að verða settur á ný á mælendaskrá.