150. löggjafarþing — 123. fundur,  23. júní 2020.

lán Íbúðalánasjóðs sem bera uppgreiðslugjald.

905. mál
[11:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ég vil taka undir með þeim sem á undan mér talaði að auðvitað myndi maður vilja brýna ráðherrann til að taka málið upp við ríkisstjórnarborðið og beina því til hæstv. fjármálaráðherra að það sem hér er spurt um verði gert. Það kemur mér reyndar á óvart hversu mörg virk lán eru háð þessum skilyrðum, að rúmlega 5.600 manns sitji uppi með þau. Lánin eru algjörar risaeðlur miðað við fjármálamarkaðinn í dag. Það er svakalega hart að ef upplýsingar mínar um 16% uppgreiðslugjald eru réttar þá kostar 1,6 milljónir að losna við 10 millj. kr. lán og það er dálítið þungur kross að bera, held ég, fyrir alla og ég held að allir geti séð sig í því. En að öðru leyti eru þessi svör þess eðlis að þau eru efni í nýja fyrirspurn til rétts ráðherra sem verður að sjálfsögðu lögð fram.

En ég vil hins vegar nota tækifærið til að hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til að taka málið upp í millitíðinni við hæstv. fjármálaráðherra og kanna það hvort þeir í sameiningu, eða fjármálaráðherra, geti þá ekki hlutast til um að það óréttlæti sem þarna er á ferðinni verði leiðrétt. Ég segi aftur: Fólk sem er læst inni með þessi lán er bæði í erfiðleikum með að greiða þau upp og í enn meiri erfiðleikum með að selja eignir með svona áhvílandi lánum. Ég get ekki ímyndað mér að íbúð með svona láni á sé góð söluvara miðað við þær kringumstæður sem nú eru. Ég hvet því ráðherra til að taka þetta upp við kollega sinn en þakka honum að öðru leyti fyrir svörin.