150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[15:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa yfirferð yfir stefnu Pírata. Það vekur nokkra undrun mína að hv. þingmaður skuli telja að íbúar höfuðborgarsvæðisins eða landsmenn hafi takmarkaðan áhuga á samgöngumálum og telji óhætt að setja þau í hendur einhverra annarra en þeirra sem kjósa um samfélagið. Þetta er ekki í samræmi við reynslu mína. Ég held að almenningur, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður um allt land, hafi einmitt mjög verulegan áhuga á samgöngumálum og jafnvel umfram mjög mörg önnur mál. Þetta sé oft á tíðum heitt mál í byggðarlögum og geti jafnvel skipt miklu máli þegar kemur að kosningum. En ef kosningarnar skipta svo engu máli því að áfram er bara eitthvert apparat sem ræður ferðinni með sínar eigin fjármögnunarheimildir og áætlanagerð og áhættustýringu og þar fram eftir götunum þá er lýðræðið ekki að virka.

Það er dálítið til siðs hjá stjórnmálamönnum nú til dags að tala niður hlutverk stjórnmálamanna af því að þeir telja það til vinsælda fallið, líklega. En stjórnmálamenn eiga engu að síður, samkvæmt okkar stjórnkerfi, sem fulltrúar almennings, sem fulltrúar kjósenda, að framfylgja þeirri stefnu sem þeir boða og voru kosnir út á. Geri þeir það ekki eða mistakist þeim með þeirri stefnu sem þeir hafa beitt sér fyrir er þeim refsað í kosningunum. Þeir bera með öðrum orðum ábyrgð. Þannig verða vonandi smátt og smátt teknar betri ákvarðanir eftir því sem kjósendur velja betri og betri stefnu og betri stjórnmálamenn. Það hefur reyndar skilað vestrænum ríkjum mjög langt á ekkert (Forseti hringir.) mjög löngum tíma. En ef við skerum á þetta vald kjósendanna þá efast ég um að það muni leiða til áframhaldandi framþróunar.