150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Kæra landsfólk. Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag, þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Svo hljóðar upphafið að aðfaraorðum nýrrar stjórnarskrár sem yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda samþykkti að gera skyldi að nýjum samfélagssáttmála fyrir Ísland. Nú eru liðin átta ár og enn sitjum við ekki öll við sama borð. Stundum virðist manni raunar eins og það búi tvær þjóðir á Íslandi. Ágæta lýsingu á þessari misskiptingu má finna í hinum fertuga Ísbjarnarblús Bubba Morthens. Annars vegar situr þar arðræninginn á skrifstofunni og hlær, því línuritið sýnir að afköstin eru meiri í dag en í gær. Hins vegar er þar konan, sem staðið hefur við vélina síðan í gær, með blóðuga fingur og illa lyktandi tær.

Arðræninginn situr inni í hlýjunni og hefur góðan aðgang að fjármagni og tækifærum. Hann getur alltaf hringt í vin og spurt hvernig hann hafi það. Gott veðrið úti, er það ekki? Síðan, þegar skórinn kreppir að í efnahagslífinu fær hann meira að segja ríkisstyrk til að reka starfsfólkið sitt svo línuritið haldi sínu striki. Og ef hann brýtur lög fær hann sex ára aðlögunartíma til að snúa við blaðinu.

Konan við vélina er hins vegar höfð úti í kuldanum og fær að heyra að þar eigi hún heima. Þegar launin hennar duga ekki fyrir mat er henni sagt að hún sé ekki nógu læs á fjármál. Ef hún stelur samloku úr Krónunni af hungri er hún send í fangelsi. Sumir fá að græða á daginn og grilla á kvöldin en aðrir mega aldrei eignast neitt.

Kæra þjóð. Hjúkrunarfræðingurinn Helga Sif Friðjónsdóttir lýsti nýlegum baráttufundi hjúkrunarfræðinga sem svo, með leyfi forseta:

„Þeir hjúkrunarfræðingar sem tóku til máls lýstu upplifun sinni af virðingarleysi, skömm, smánun, þöggun og því að ekki væri hlustað á þá. Þeir lýstu skilningsleysi annarra á því hvað hjúkrunarfræðingar gera í raun í vinnunni og að einhverju leyti uppgjöf tengt þessari löngu baráttu.“

Upplifun hjúkrunarfræðinga hryggir mig en ég undrast hana ekki. Hvernig ætti þeim að líða þegar hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson gerir athugasemd við tóninn í kjarabaráttu þeirra? Eftir heilan heimsfaraldur? Tóninn? Svo lítils virði er framlag hjúkrunarfræðinga í huga ráðherrans að gerðardómur þarf nú í annað sinn að ákvarða laun þeirra. Í huga mannsins sem er með næstum fjórföld meðallaun hjúkrunarfræðings eru sanngjarnar kröfur þeirra um launahækkun út úr öllu korti, og eins víst að samfélagið fari á hliðina, ef gengið verður að þeim. Og þetta frá manni sem fékk rúman 100.000 kall í launahækkun á einu bretti, aðeins minni en helsta samverkakona hans í þessari ríkisstjórn, hæstv. forsætis- og jafnréttismálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir.

Árið 2018 sagði þessi sami maður nákvæmlega sama hlutinn um kröfur ljósmæðra sem einnig hafa endað í gerðardómi tvisvar í röð. Hann gekk reyndar svo langt í fyrra skiptið að neita að greiða þeim laun fyrir þá vinnu sem þær unnu í verkfallinu og þurfti hæstaréttardóm til að borga þeim. Jaðarsetning, þöggun, virðingarleysi, skilningsleysi.

Þessi upplifun hjúkrunarfræðinganna er ekki einsdæmi í íslensku samfélagi. Raunar er jaðarsetning aðferð sem valdhafar beita miskunnarlaust til að berja niður hver þau sem dirfast að láta rödd sína heyrast með tón sem valdhöfunum mislíkar. Þetta þekkja öryrkjar og fatlað fólk. Þetta þekkja láglaunastéttir, eldri borgarar og útlendingar. Og þetta þekkir fræðifólk sem bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn sé methafi í spillingarmálum.

Kæra þjóð. Við getum heldur ekki látið eins og sá kerfisbundni rasismi sem enn viðgengst vestan hafs þekkist ekki á litla sæta Íslandi. Hann birtist skýrt í því grimmilega frumvarpi sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur nú lagt fram í þrígang til að veikja réttarstöðu flóttafólks. Hann birtist í því að kasólétt albönsk kona er rekin úr landi með valdi. Hann birtist í gleði lögreglunnar yfir nýja landamærabílnum sínum sem hún ætlar að nota til að stoppa bíla með fólki sem lítur út eins og útlendingar til þess að, með leyfi forseta, „athuga hvort þeir séu þeir sem þeir segjast vera“. Og hann birtist í því að í maímánuði voru 40% allra atvinnulausra erlendir ríkisborgarar þótt þeir séu aðeins 15% íbúa á Íslandi.

Forseti. Skilaboð valdhafa eru skýr: Aðeins þau sem eru valdinu þóknanleg fá að tilheyra samfélaginu Íslandi. Hinum er ekki boðið. Hér er veisla, segir valdið, það sér allt óbilað fólk. Það er bara ekki öllum boðið. Hjúkrunarfræðingur, segirðu? Þér er ekki boðið. Ljósmóðir? Þér er ekki boðið. Öryrki? Eldri borgari? Ykkur er ekki boðið. Innflytjandi? Útlendingur? Guð forði þér, hælisleitandi? Þú átt ekki heima hér og þér er alls ekki boðið.

Þessi villuljós valdhafanna eru einungis vopn í höndum þeirra á meðan við leyfum þessu að viðgangast. Því klíkan er smá, sem allt á og má. Og hún má sín lítils þegar allir þessir hópar sem valdhafar hafa jaðarsett og ýtt út í kuldann átta sig á stærð sinni og krafti. Þetta sést vel á nýlegum sigrum láglaunafólks sem virkjaði samtakamáttinn.

Því vil ég segja að lokum við hjúkrunarfræðingana, við fiskverkakonurnar, við ljósmæður, við öryrkja, aldraða og fatlaða, við ykkur öll sem haldið er úti í kuldanum: Ykkur er boðið. Þið eigið öll heima hér. Ég vil segja við alla þá frábæru innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur sem hér búa, með leyfi forseta:

You belong here.

Bahn khun xyu thi ni.

Wasz Dom jest tutaj.

Dito ang bahay nyo.

Eða á íslensku: Þið eigið heima hér. Því að við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag, þar sem allir sitja við sama borð og þar sem ólíkur uppruni okkar auðgar heildina.