150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þetta er í þriðja sinn sem mér hlotnast sá sómi að taka þátt í eldhúsdagsumræðum á Alþingi. Það er því kannski við hæfi að líta um öxl og sjá hverju við höfum áorkað í þeim málum sem Flokkur fólksins hefur barist hvað harðast fyrir. Hér hef ég ítrekað komið upp og ekki bara bent á það, heldur hrópað á réttlæti fyrir tugi þúsunda Íslendinga sem haldið er í svo rammgerðri fátækt að þeir standa í löngum röðum við hjálparstofnanir með börnunum sínum til að biðja um mat.

Svona er Ísland í dag. Það hefur akkúrat ekkert breyst. Ég ætla að segja ykkur opinbert leyndarmál; eina kjarabótin sem fátækasta fólkið hefur fengið frá því að ég kom á Alþingi er leiðrétting vísitölu 1. janúar ár hvert. Það er ekki einu sinni leiðrétting samkvæmt gildandi lögum almannatrygginga, 1. mgr. 69. gr., sem segir að leiðrétta eigi laun í samræmi við almenna launaþróun í landinu hverju sinni. Ónei, launin eru leiðrétt samkvæmt neysluvísitölu, og launabilið hefur vaxið það mikið á þessum tíma, gliðnunin orðið það mikil á síðustu tíu árum, að það er tæp 30%. Og nú, virðulegi forseti, og nú, góðir landsmenn, hefur gengi krónunnar fallið í kjölfar Covid-faraldursins, sem allir þekkja og ég ætla ekki að eyða mínum tíma í að tala um nema til að segja: Takk, þið öll sem hafi haldið okkur á floti, heilbrigðisstarfsfólk, framlínufólkið allt, takk fyrir ykkur, því að án ykkar stæðum við sennilega ekki hér.

En það sem ég vil tala um í sambandi við hið opinbera leyndarmál er að 17% fall krónunnar hefur orsakað það að allir þeir sem voru fátækir og í sinni fátæktargildru þegar ég stóð hér í eldhúsdagsumræðum fyrir ári hafa einungis orðið fátækari og átt erfiðara með að ná endum saman, vegna þess að eðli málsins samkvæmt hækkar öll neysla, öll framfærsla, öll nauðsynjavara með falli krónunnar. En hvað gerum við? Hvað gerum við, kæru landsmenn? Hvað gerum við, góði þingheimur, frábæra ríkisstjórn?

Flokkur fólksins hefur ekki skorast undan því að standa með öllum þeim aðgerðum, öllum þeim málum sem við teljum góð og gild mál fyrir fólkið í landinu. En hvernig starfar svo þingið? Hvernig getum við unnið að málefnum okkar á hinu háa Alþingi? Jú, við erum með starfsmenn, við erum þingmenn, við komum með frumvörp, við viljum sýna að við séum hér að vinna fyrir kjósendur okkar, fólkið sem valdi okkur til verksins. En komum við málum okkar hér í gegn? Nei, það gerum við bara alls ekki. Stjórnarandstaðan getur étið það sem úti frýs. Það er staðreyndin.

Flokkur fólksins á 18 mál liggjandi inni í nefndum núna rétt fyrir sumarfrí, 18 mál, allt mál sem eru til hagsbóta fyrir fátækasta fólkið í landinu, allt mál fyrir fátækasta fólkið í landinu. Og svo furða stjórnmálamenn sig á því að hið háa Alþingi njóti ekki trausts. Það er til fleira í landinu en fyrirtæki. Þó að við verðum að bjarga fyrirtækjunum til að halda atvinnustiginu gangandi, þó að við verðum að gera allt er náttúrlega alveg stórmerkilegt að ríkisstjórnin skuli hreinlega borga fyrir laun á uppsagnarfresti, að ríkisstjórnin skuli hreinlega hvetja fyrirtæki til að segja starfsfólki sínu upp, hvetja hreinlega til aukins atvinnuleysis.

Flokkur fólksins telur að ekki séu öll fyrirtæki í landinu á hausnum þrátt fyrir mjög erfitt árferði. Við teljum að til séu þau fyrirtæki sem eru svo stöndug að þau geti tekið á sig ákveðna holskeflu og staðið keik eftir. Við gerum okkur grein fyrir því að mörg fyrirtæki hafa skapað sér mjög góðan rekstrargrundvöll og greitt sér út ríflegan arð á síðustu árum. Þessi fyrirtæki eiga ekki að þurfa að leita í vasa skattborgaranna, eiga ekki að grípa um björgunarhringinn og líflínuna sem ríkisstjórnin kastar til þeirra. Það hefur aldrei verið meiningin. En okkur verður oft hált á því að treysta á hið góða. Okkur hefur orðið hált á því vegna þess að einhverra hluta vegna eru alltaf einhverjir sem vilja misnota þá góðvild og þá aðstoð sem þeim er boðin. En það sem er daprast af öllu döpru er að við skulum ekki átta okkur á því að það er stór hópur úti í samfélaginu sem þarf á hjálp okkar að halda, sem nýtur þess ekki sem þið talið um: Við skulum vinna saman. Verum góð við hvert annað. Við erum með frábært heilbrigðiskerfi. Allt er svo frábært hjá okkur.

Þetta er bara ekki satt. Þetta á bara við fyrir suma, ekki fyrir alla.

Við þær tugþúsundir Íslendinga sem settar eru hjá garði og reyrðar niður í fátækt, segi ég: Fyrirgefið að ekki skuli hafa verið hlustað meira á það sem ég hef verið að reyna að berjast fyrir, fyrir ykkar hönd. Fyrirgefið að 18 mál, öll fyrir ykkur, skuli liggja í fastanefndum Alþingis og fái ekki að koma hér í atkvæðagreiðslu. Fyrirgefið það. En það þýðir ekki að við höfum ekki náð ákveðnum árangri sem ég er stolt af. En við í Flokki fólksins höfum ekki verið að eyða almannafé hingað til í markaðssetningu til að sýna hvað við erum frábær og hvaða árangri við höfum þó náð. En einu skal ég heita ykkur og geri það hér og nú: Það verður gerð bragarbót á því. Það skulu allir fá að vita hvernig okkur hefur gengið hér á hinu háa Alþingi og hverju við höfum þó áorkað. Það verður ekki þannig að allir verði hissa á því að þeir fái allt í einu meira inn á bókina sína: Nei, úps, fékk ég einhverja leiðréttingu frá Tryggingastofnun? Ef það er ekki vegna þess að það er 1. janúar er það vegna þess að Flokkur fólksins kom því til leiðar.

Eitt mál er það sem við fengum í gegn sem allur þingheimur tók undir, enda sanngirnis- og réttlætismál. Og ég vil að þið vitið það, kæru öryrkjar og þeir sem notið hafa styrkja vegna fátæktar til lyfja- og tækjakaupa, að það mál fór í gegn fyrir tilstilli Flokks fólksins. Ég skora á ríkisstjórnina og ykkur öll að fara að taka utan um okkar minnstu bræður og systur og sýna í verki til hvers við erum hér.