150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Fordómar á Íslandi birtast því miður í ýmsum myndum. Ein myndin er fjárhagslegt ofbeldi sem t.d. stór hópur öryrkja verður fyrir. Að verða fyrir fjárhagslegu ofbeldi fyrir það eitt að fæðast með fötlun, veikjast eða bara slasast er ömurlegt og okkur til háborinnar skammar. Það er því miður staðreynd að við fötlun, veikindi eða slys er fjárhagsleg framfærsla viðkomandi svo naumt skömmtuð af ríkinu að viðkomandi verður að lifa, ekki einungis við fátækt, heldur sárafátækt, jafnvel allt sitt líf.

Hvernig getum við látið þetta viðgangast ár eftir ár, og það með fjölda barna í þessari ömurlegu aðstæðum?

Þetta fjárhagslega ofbeldi birtist í fáránlega mörgum myndum með keðjuverkandi skerðingum, eins og t.d. ef viðkomandi öryrki fær greitt úr lífeyrissjóði eða bara smáarf. Þá fara skerðingarhjólin á fullt. Afleiðingarnar eru þær að ekkert verður eftir þegar 70–100% eignaupptakan hefur farið fram hjá ríki og sveitarfélögum.

Nú hefur komið í ljós að skilaboð ríkisstjórnarinnar eru skýr: Lífskjarasamningarnir eru alls ekki fyrir þá sem eru á lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins. Öryrkjar og eldri borgarar eiga engan rétt á lífskjörum eða samningum almennt. Öryrkjar og eldri borgarar eiga einir engan rétt á að fá kjaragliðnun undanfarinn áratug leiðrétta aftur í tímann. Nei, skilaboðin eru skýr: Étið það sem úti frýs og lifið áfram í fátækt og þá einnig sárafátækt í boði þessarar ríkisstjórnar.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að orðið hefði algjörlega einstök þróun á framlögum úr almannatryggingum á undanförnum árum, að þau hafi því sem næst tvöfaldast að raunvirði í útgreiðslum. En hvernig hefur þessi algjörlega einstaka þróun á framlögum úr almannatryggingum skilað sér í krónum, og það beint í illa götótta, keðjuverkandi skerðingarvasa þeirra verst settu í þjóðfélagi okkar? Jú, um 220.000 kr. til öryrkja eftir skatt og um 250.000 kr. á mánuði til eldri borgara eftir skatt. Það er algjörlega einstök þróun á framlögum úr almannatryggingakerfinu því að auðvitað er hægt að vera stoltur af þessum rausnarlegu upphæðum til framfærslu fyrir veikt fólk og verst settu eldri borgara landsins. Samanlagðar skerðingar til öryrkja og eldri borgara í almannatryggingakerfinu voru um og yfir 60 milljarða kr. 2019. Spáið í þessar tölur, 60.000 milljónir króna!

Ef lífeyrislaun almannatrygginga hefðu hækkun eins og lífskjarasamningarnir, og hvað þá ef kjaragliðnunin hefði einnig verið leiðrétt, væri þessi mánaðarupphæð ekki undir 300.000 kr. á mánuði eftir skatt fyrir öryrkja. Og ef svo væri, sem það er auðvitað ekki, væri það sko engin ofrausn.

Allir flokkar hafa lofað að afnema krónu á móti krónu skerðinguna og ríkisstjórnarflokkarnir gerðu það með stæl með því að hafa bara 65 aura á móti 65 aurum og málið var leyst. Snilldarbrella hjá þeim á kostnað þeirra öryrkja sem verða fyrir þessum ömurlegu skerðingum.

Flokkur fólksins mun halda áfram að berjast fyrir mannréttindum handa þessum hópi fólks og börnum þeirra og sjá til þess með öllum ráðum að þau geti lifað góðu og mannsæmandi lífi.

Flokkur fólksins mun halda áfram að berjast gegn fátækt og mismunun í öllum birtingarmyndum þeirra. Þegar ríkisstjórn á hverjum tíma vill ekki taka á þessum vanda veiks fólks verður þjóðin að senda skýr skilaboð um að fátækt á Íslandi, hvað þá sárafátækt, verði ekki liðin lengur.

Góðir landsmenn. Biðlistar eftir nauðsynlegum aðgerðum lengjast sífellt og því verða sjúklingar á biðlistum eftir t.d. bæklunaraðgerðum að halda áfram að bryðja rótsterk verkjalyf, en þeir sem geta og vilja geta kannski skriðið fljótlega um borð í flugvél og farið í aðgerð í útlöndum með tilheyrandi kostnaði, allt að þreföldum, í boði ríkisins. En auðvitað er ekki hægt að nýta sömu þjónustu hér á landi þar sem í boði eru þrjár aðgerðir fyrir hverja eina í útlöndum. Það er ekki frábær hagstjórn.

Börn bíða og bíða á biðlistum eftir meðferð á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Fjölmörg börn fá ekki þá hjálp sem þau eiga lagalegan rétt á og falla því utan kerfis og verða að hverju? Framtíðaröryrkjum í boði ríkisins. Börn með langvarandi, geðræn vandamál eru á biðlistum eftir meðferð við hæfi, og þá sérstaklega ef þau eru á einhverfurófi. Það er ekki bara fáránlegt heldur okkur hér á Alþingi til háborinnar skammar.

Geðrænir sjúkdómar eru lamandi, hamlandi og valda þjáningum og eru lífshættulegir, sagði móðir barns sem ekki fær þjónustu við hæfi fyrir barnið sitt. Barnið fær bara fimm klukkustundir í allt sumar eftir að öll meðferð þess fór forgörðum vegna Covid-19. Það er skammarlegt, bara fimm klukkustundir í allt sumar.

Þetta er Covid-mál sem á að vera í forgangi og okkur ber að leysa strax eins og önnur slík mál.

Getum við ekki séð til þess að börn, fárveik börn sem einhverra hluta vegna veikjast ekki rétt, fái þjónustu? Eða þarf að gefa það út að sumir sjúkdómar veiti fólki ekki rétt á heilbrigðisþjónustu?

Góðir landsmenn. Látum vera að við forgangsröðum málum í sambandi við fullorðna einstaklinga þar sem það á við. En við getum ekki leyft okkur það gagnvart börnum. Það gengur ekki að börn sem þurfa á lífsnauðsynlegri þjónustu að halda séu sett á bið.

Góðir landsmenn. Breytum þessu strax. — Eigið góðar stundir.