150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Alls konar landsmenn. „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu. Ísland er frjálst og fullvalda ríki. Hornsteinar þess eru virðing fyrir lögum, frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi.“ — Í bandarískum ræðum er vinsælt að vitna í upphafsorð stjórnarskrár Bandaríkjanna. Eitthvað sem sameinar. Eitthvað sem er þeirra eigið verk; boðskap um frelsi, mannréttindi, lýðræði, að búa í réttarríki og fleira í þeim dúr. En það er ekki sjálfgefið að þessi gildi hafi raunverulega þýðingu á borði sem og í orði. Samfélagið sjálft þarf að trúa á þau. Það þarf að vera stolt af þeim og halda í þau sem hluta af sjálfsmynd sinni.

Ef við lítum aftur til Íslands má spyrja; hvaða sambærilegu gildi höfum við hér? Jú, við búum við þokkalegt frelsi, mannréttindi, lýðræði og réttarríki, en það eru allt hlutir sem við erfðum frá útlöndum eða tókum upp eftir alþjóðasáttmálum. Hvað erum við? Hvað er það sem sameinar íslensku þjóðina? Hverju erum við stolt af sem er okkar eigið? Jú, sennilega er það sjálfstæðið, íslensk tunga, íslensk saga og íslensk náttúra. Í stuttu máli eiga Íslendingar að vera stoltir af uppruna sínum. En hvað er það eiginlega að manneskja sé stolt af því að hafa fæðst inn í einhverjar aðstæður? Hvernig passar það við lexíur mannkynssögunnar, eða yfirstandandi vitundarvakningu um kynþáttahatur og fordóma, sem Íslendingar eru á engan hátt ónæmir fyrir? Og hvað er það annars við upprunann sem við eigum að vera svo stolt af? Það er alveg þess virði að velta því fyrir sér. Hvernig Kári hefndi Njáls? Hvernig Bergþóra og Hallgerður létu menn, þar á meðal þræla, drepa hver annan yfir pirringi? Hvernig Jón Ólafsson Indíafari lúbarði einhvern Dana fyrir að drulla yfir Ísland, til varnar sóma og heiðri ættjarðarinnar? Varla.

En við erum kannski réttilega stolt af því að muna eftir þessu og þakklát fyrir að skilja það. Að geta lesið þetta og lært af því. Gleyma því ekki hvers konar samfélag við vorum, úr hvaða leðju þessi lótus óx. Að líta til baka, og frekar en að upphefja til fyrirmyndar, að vera betri en við vorum áður. Að hafa lært af mistökum fortíðarinnar. Að hafa tileinkað okkur nýja þekkingu og ný gildi — ítrekað. Að endurskoða siðferðisgildi okkar jafnóðum og við viðurkennum ranglætið sem við sáum kannski ekki áður eða dröttuðumst ekki til að láta okkur varða. Að vera samfélag sem þróast og þroskast. Þetta er hið raunverulega framlag tungu okkar og sögu til betra samfélags, og fyrir það getum við verið þakklát.

Það skiptir máli að það sjáist að við getum þroskast. Og það skyldi ekkert okkar óttast. Þrátt fyrir skyldunöldrið yfir ungu kynslóðinni á hverjum tíma, þá eru kynslóðirnar sem lifa núna betri en þær sem komu á undan, sem síðan voru betri en þær sem komu á undan þeim. Samfélagið okkar verður aldrei fullkomið, en kannski sjáum við þá staðreynd svo skýrt, einmitt því við kunnum svo vel að láta okkur dreyma um betri heim.

Og látum drauminn aldrei síga. Því þótt við séum fá, eða jafnvel vegna þess að við erum fá, getum við brugðist hratt við, ekki bara efnahagskreppum og heimsfaröldrum, heldur einnig nýjum hugmyndum og breytingum á siðferðisviðmiðum. Þegar við grípum tækifærin sem þeim fylgja skal stoltið vera fyrir það sem við gerðum en ekki hver við erum eða hvaðan við komum.

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu. Ísland er frjálst og fullvalda ríki. Hornsteinar þess eru virðing fyrir lögum, frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi.“ — Þessi orð lýsa ekki fullkomnu samfélagi, kæru landsmenn. En þau eru samt nokkuð góð byrjun.