150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[22:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Þarna sjáið þið nú bara, það geta falist ákveðin forréttindi í því að vera í tveggja manna þingflokki. Hér fæ ég t.d. að tala tvisvar, eini þingmaðurinn. Ég veit að flest ykkar hafa fengið nóg af mér í fyrra skiptið, en hér er ég nú aftur komin engu að síður.

Hvað um það. Mig langar að venda mínu kvæði í kross og líta til framtíðar, horfa til haustsins og næsta vetrar. Jú, við unnum fyrsta áfangasigurinn gagnvart kórónuveirufaraldrinum hér heima. En nú erum við á miklum óvissutímum. Það er næsta víst að við verðum aftur og enn frekar að stíga fast niður og standa saman í gegnum komandi vetur. Þá munu fyrst virkilega koma fram þær afleiðingar sem veirufaraldurinn mun hafa á okkur. Gríðarlegt atvinnuleysi þar sem efnahagur og afkoma heilu og hálfu fjölskyldnanna mun bíða mikinn hnekki, þar sem farið hefur verið í fjárhagslegar skuldbindingar í góðri trú um að tekjurnar væru nægar til að standa undir þeim, en allt í einu blasa við berstrípaðar atvinnuleysisbætur.

Þess vegna skora ég á ríkisstjórnina að hækka atvinnuleysisbæturnar, setja fólkið í fyrsta sæti.

Mig langar að benda á að 16. júní sl. var meðferðarheimilinu Vík lokað. Það er meðferðarheimili fyrir ávana- og fíkniefnaneytendur sem leita sér hjálpar hjá SÁÁ. Það verður lokað í sex vikur. Þingheimur, fjárveitingavaldið, veitti 150 millj. kr. á fjárlögum 2018, eða fjárauka, við komum því inn í fjáraukann, til að styðja við starfsemi SÁÁ. Þar var um 700 manna biðlisti sjúklinga sem vildu fá hjálp. En viti menn, það eru enn þá útistandandi 50 millj. kr. sem ekki hafa verið settar inn í Sjúkrahúsið Vog. 100 millj. kr. hafa verið greiddar í göngudeildir, sem er vel og ómetanlegt, en samt sem áður er miklu meiri þörf. Þó að ríkisstjórnin og heilbrigðisráðherra segi gjarnan: Við erum jú að setja X-margar krónur í þessa starfsemi, þá erum við að tala um fárveikt fólk.

Mér finnst með ólíkindum, núna í miðjum kórónuveirufaraldri að við skulum segja: Allt í lagi, þetta gerist bara — ég var næstum því búin að segja: Skítur skeður. Fyrirgefið. Afsakaðu, forseti, en mig langaði að gera það.

Síðan var það núna í fjáraukanum, sem við afgreiddum í maí sl., að samþykkt var að veita 25 millj. kr. til hjálparstofnana, sem sannarlega gefa fólki mat. Og vitið þið hvað? Það er ekki búið að greiða eina einustu krónu af því enn þá. Og ég spyr: Hvenær ætlum við að hjálpa þessu fólki ef ekki núna? Til hvers erum við að segjast ætla að hjálpa ef það er ekkert að marka?

Ég lít ekki á fólkið okkar sem þarf virkilega á þessu að halda, eins og um einhver brúarlán eða einhverja lokunarstyrki sé að ræða. Við í Flokki fólksins setjum fólkið í fyrsta sæti og ég trúi því að við getum öll verið sammála um það hér, hvar í flokki sem við stöndum, að við eigum að setja fólk í fyrsta sæti, og fyrst og síðast standa við það sem við segjum og lofum hér, sér í lagi þegar við erum búin að koma því í gegnum þingið og þingheimur hefur samþykkt það. Eftir hverju erum við að bíða? (Forseti hringir.)

Gleðilegt sumar, kæru landsmenn. Hvernig sem við höfum það ætlum við að standa saman og við ætlum að vinna næsta stríð því að án samstöðunnar erum við í rauninni ekkert.