150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti þessu upp vegna þess að mér finnst ákveðinn árekstur felast í því að við ætlum að samþykkja í rauninni óútfærða gjaldtöku í þessu máli en vera svo líklega á móti henni í samvinnuverkefnunum.

Það er annað sem mig langar að fara yfir með hv. þingmanni. Ég get alveg verið sammála því sem þingmaðurinn sagði í ræðu sinni um að hagsmunir þessara hópa, annars vegar þeirra sem þurfa eða vilja nota almenningssamgöngur og hins vegar þeirra sem nota einkabílinn, geti farið saman. En þeir geta það á þeim tímapunkti þegar nýtingin á almenningssamgöngunum er nógu góð því að ef nýtingin er ekki nógu góð er samningurinn í rauninni bara fyrir síðarnefnda hópnum.

Ríkið mun væntanlega þurfa að standa fyrir a.m.k. þessum 105, 110 milljörðum miðað við það fyrirkomulag sem hér er teiknað upp. Hefur þingmaðurinn engar áhyggjur af því að komi til þess að ríkið þurfi að standa skil á öllum þessum fjármunum takmarki það önnur útgjöld ríkissjóðs? Að við þurfum að skera niður annars staðar í rekstrinum til að geta staðið undir þeim gríðarlegu ábyrgðum sem þarna er verið að samþykkja?