150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[16:36]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég var að ræða frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þar er ég að velta fyrir mér framlaginu en Keldnalandið er hluti af framlagi ríkisins, eða gert er ráð fyrir því að það verði Keldnalandið. Frumvarpið fór til umfjöllunar í fjárlaganefnd og eru allir nefndarmenn á frumvarpinu, að vísu nokkrir með fyrirvara, þingmenn úr stjórnarandstöðu, en sérstöku nefndaráliti skilar einn nefndarmaður, hv. þm. Birgir Þórarinsson, þar sem hann telur áform um borgarlínu vanhugsuð. Það er ekki eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson sé eini aðilinn sem varar við borgarlínu heldur eru það fjölmargir stjórnmálamenn og verkfræðingar o.fl. sem hafa verið að skrifa síðustu daga um borgarlínuna og vara við að farið sé út í jafn viðamikla fjárfestingu þegar margt í sambandi við hana er vægast sagt í mikilli óvissu.

Ég ætla að ræða aðeins um Keldnalandið. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert athugasemdir í nefndaráliti sínu þar sem taka þarf afstöðu til skilyrða vegna afhendingar landsins. Á því landi er Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði og þá á eftir að taka afstöðu til þess hvort tilraunastöðin verði áfram á svæðinu eða hvort henni verði fundinn nýr staður Meiri hlutinn vekur einnig athygli á að áætlað verðmat á landi ríkisins við Keldur sé lágt miðað við stærð þess og staðsetningu. Þróunin á verðmæti landsins sé því lykilatriði um framgang verksins. Verði verðmæti minna hækkar beint framlag ríkissjóðs samkvæmt sáttmálanum. Verði verðmæti þess meira telur meiri hlutinn skynsamlegt að sú fjárhæð komi til lækkunar á þeim hluta verkefnisins sem ætlunin var að fjármagna með flýti- og umferðargjöldum.

Ég átta mig ekki á þessari afgreiðslu. Ef verðmætið verður minna, verðmæti Keldnalandsins, á ríkið að greiða. Ef það verður meira mun ríkið halda áfram að borga það fjármagn sem upphaflega var ráðgert að ætti að renna í verkefnið en fjármögnun var endurskoðuð vegna flýti- og umferðargjalda. Ég átta mig ekki alveg á svona samningagerð. Þetta er algerlega einhliða. Ég velti stundum fyrir mér, frú forseti, hver stjórnar ferðinni í öllum þessum málum sem varða borgarlínu. Það er alveg sama hvar borið er niður, þetta er allt á annan veginn. Ríkið á að punga út skyldi verðið verða lægra. En ef það verður hærra — nei, þá eiga útgjöld ríkisins ekki að lækka. Þetta er einkennilegt og ég hef bara sjaldan séð eins einhliða framsetningu á nokkru verkefni. Það er allt sett á ríkið og ríkið lætur þetta ítrekað ganga yfir sig.

Það er allt á annan veginn, frú forseti. Það er alveg sama hvað maður les lengi, alltaf skal maður rekast á eitthvað nýtt í þessu þar sem hallar á ríkissjóð. Skattfé almennings er ekkert veðfé. Það er ekki fé til að veðja með. Ég verð gjörsamlega orðlaus yfir þessu. Það er allt á annan veginn. Ég hef varla nokkurn tíma en það er annað sem ég rak augun í og varðar líka hlut ríkisins og ég kem að því í næstu ræðu minni. Það er álíka einhliða.