150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:14]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að árétta það sem kemur fram í upphafi nefndarálits minni hlutans, sem hv. þm. Birgir Þórarinsson ritar, með leyfi forseta:

„Minni hluti fjárlaganefndar fagnar þeirri áherslu sem fram kemur í þessu frumvarpi á uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.

Minni hlutinn fagnar sérstaklega áherslu á nútímavæðingu ljósastýringarkerfis höfuðborgarsvæðisins, samkomulagi um framkvæmdir á stofnbrautum, áætlaðri uppbyggingu hjólastíga og annarra vistvænna tegunda samgöngumáta. Minni hlutinn getur hins vegar ekki fallist á áform um uppbyggingu Borgarlínu.“

Um það snýst þetta í stærstum dráttum. Ýmsar skýringar, margar hverjar loðnar, hafa verið gefnar á því hvað borgarlína er og hvaðan hugmyndin að fyrirbærinu kemur. Er verið að tala um lest eða strætisvagn? Mun borgarlína vera vagn á teinum eða langur strætisvagn, liðvagn, jafnvel knúinn rafmagni? Borgarlínan mun gera kröfur um stoppistöðvar þar sem nauðsynlegt er að fólk geti gengið inn, fólk á hjólastólum, fólk með göngugrindur, handleggsbrotið fólk á leið á spítala, sjúklingar á leið á Landspítala. Línukerfi hentar prýðilega þar sem bílaeign er lítil, álag á almenningssamgöngur mikið og biðraðir eru á biðstöðvum almenningsvagna og afgreiðsla inn í þá tímafrek. Slíkt kerfi getur aukið flutningsgetu, um það deilir enginn. Gallinn við slíkt kerfi hér er að svo háttar ekki til hér á landi með mikla traffík. Álag á almenningssamgöngukerfi er svo lítið að það stendur nánast ekki undir nafni. Eins og er getur það flutt fjórum til fimm sinnum fleiri en viðskiptavinirnir eru nú. Það er u.þ.b. einn af hverjum 25 eða 4% á álagstímum. Þetta segir að jafnvel þótt strætó taki 12–20% af umferðinni, eins og hann getur nú þegar, sér varla högg á vatni í bílafjöldanum.

Borgarlína er því afar vond hugmynd, sprottin upp úr einhverjum draumi um vistvænar almenningssamgöngur. Hún á eftir að kosta gríðarlegar fjárhæðir, þeir 60 milljarðar sem verið er að tala um núna duga varla fyrir núvirtu rekstrartapi. Svo eru stórir vagna sem eyða 60 lítrum á hundraðið í stað þeirra 45 sem fara í dag ekki vistvænir. Marga dreymir um rafmagn í strætó. Það strandar á að ekki er pláss fyrir geymana nema upp á þaki sem er afar vont. Kannski verða lagðar raflínur sem tengja vagnana. Er sá kostnaður inni í vafasömum kostnaðarútreikningum? Fyrir nokkrum árum var reiknað með því að vagnar yrðu keyrðir á metani, það var meira að segja lagt út í miklar fjárfestingar í gasgerðarstöð. En hvernig á landsbyggðin að nýta sér borgarlínuna? Verða gerð risabílastæði í Mosfellsbæ eða við Rauðavatn svo fólk geti geymt bílana þar þegar það kemur til höfuðborgarinnar? Ekki mun það geta nýtt sér göturnar þegar búið er að þrengja að öllum öðrum vegfarendum. Borgarlínuhugmyndina nýtur fylgis, sérstaklega hjá þeim sem búa miðsvæðis. Hvar skyldu borgarfulltrúa Reykjavíkur búa sem taka undir þetta?

Ég vil í lok ræðu minnar árétta það sem ég sagði í upphafi: Við fögnum því að það sé verið að taka á þessum málum í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu en þessi borgarlínuhugmynd stingur þar algerlega í stúf og hana viljum við fá út í bili og vinna miklu betur að því máli þannig að hægt sé að gera það sem vantar í þessa áætlun sem sýni til hlítar út á hvað þetta gengur allt saman og hver kostnaðaráætlunin er.