150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla síðar að fjalla um álit eða umfjöllun sem átti sér stað í fjárlaganefnd og við höfum fengið lítið minnisblað um frá okkar manni í fjárlaganefndinni þar sem Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmaður og endurskoðandi, var að benda á að rétt væri að fara að lögum varðandi hlutafélagið, þ.e. lögum um opinber fjármál, en ég fer yfir það síðar.

Ég ætla hins vegar að ítreka enn og aftur að ástæða þess að við teljum varhugavert að þetta mál fari í gegn, eins og útlit er fyrir í dag, er að við höfum áhyggjur af því að þarna sé verið að binda ríkissjóð til langs tíma með þeim hætti að ekki sé hægt að hafa góða stjórn á fjárstreymi úr ríkissjóði í þetta verkefni. Ég veit að á þingi eru a.m.k. þrír þingmenn sem hafa setið sem fjármálaráðherrar og ættu því að þekkja mikilvægi þess að hafa skýrar reglur, skýr ákvæði og litla eða enga óvissu um þau atriði sem snerta ríkissjóð og útgjöld sjóðsins.

Ég hefði gjarnan viljað heyra, herra forseti, þessa ágætu þingmenn koma hér og rökstyðja hvers vegna þurfi ekki að setja frekari fyrirvara inn í þessi lög um opinbera hlutafélagið sem við sjáum hér. Mér finnst allt í lagi, ef menn koma hér og færa fyrir því sannfærandi rök, að viðurkenna þá að ég hafi rangt fyrir mér, en það hefur ekkert á það reynt. Hér hefur ekki verið reynt að verja það sem hér stendur eða þá að hrekja þær áhyggjur sem við höfum. Það er meira að segja þannig, eins og fram kom áðan, að þingmenn sem gefa sig gjarnan út fyrir að vera nákvæmir, passasamir og vilja fara algerlega eftir lögum virðast slá af þeim kröfum sínum þegar kemur að þessu verkefni og er það svolítið undarlegt, verð ég að segja.

Annað sem ég hef gagnrýnt í mínum ræðum er að ég hef áhyggjur af því að þessi möguleiki á miklu fjáraustri úr ríkissjóði inn í þessi verkefni, sér í lagi þetta borgarlínuverkefni, muni koma niður á öðrum verkefnum ríkissjóðs því að ekki verða þessir fjármunir notaðir margoft, sömu fjármunirnir. Ég hef t.d. áhyggjur af því að aðrar vegasamgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu, í nágrenni borgarinnar og sveitarfélögunum hér í kring, muni sitja á hakanum í áratugi gangi þetta eftir með þessum hætti, að fyrirvararnir séu ekki nógu sterkir. Ég hef líka áhyggjur af því að vegir í nágrenni Reykjavíkur, á Vesturlandi, á Norðurlandi vestra, svo að dæmi sé tekið, muni áfram sitja á hakanum. Þar eru enn þá malarvegir. Þar eru vegir milli smærri þorpa og byggðarlaga, vegir sem tengja saman ferðaþjónustustaði, sem þurfa að fá aukið fjármagn. Ég hef áhyggjur af því að þeir sem ætla sér að styðja þennan óútfyllta tékka séu á sama tíma að segja við það ágæta fólk sem beðið hefur eftir bótum: Þið verðið bara að bíða lengur.

Ég ætla að ítreka það, herra forseti, sem ég hef sagt nokkrum sinnum og ætla að reyna að muna eftir að hafa í öllum mínum ræðum hér eftir: Þetta verkefni mun fara fram úr áætlun. Það verður komið til ríkissjóðs og krafist verður meira fjármagns. Ég get ekki sagt hvort það verður á öðru ári þessara framkvæmda, þriðja ári eða hvenær. Það verður komið til ríkissjóðs og krafist meira fjármagns. Þá verður ríkissjóður að geta sagt, samkvæmt því samkomulagi sem var gert, að það sé einfaldlega ekki í boði, nema e.t.v. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. En því er ekki til að dreifa eins og málið lítur út í dag, herra forseti.