150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Þegar forseti stoppaði mig áðan í miðri setningu, vegna þess að tíminn var búinn, var ég að koma að einu af áhugaverðari atriðum þessa samnings hvað varðar mat á áhrifum hans. En í kaflanum um mat á áhrifum segir, með leyfi forseta, hér er komið að þessu atriði með fasteignafélagið, fasteignafélag ríkisins:

„Þá verður land ríkisins að Keldum lagt til félagsins sem fær það hlutverk að annast þróun og sölu þess. Allur ábati af sölu landsins mun renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu.“

Svo kemur:

„Ef ábatinn verður minni en 15 milljarðar kr. mun ríkið tryggja að lágmarki 15 milljarða kr. fyrir lok framkvæmdatímans. Ef ábatinn verður meiri mun það fé sem er umfram þá fjárhæð renna til verkefnisins til viðbótar við önnur framlög eða til lækkunar flýti- og umferðargjalda.“

Með öðrum orðum, herra forseti, — það er alveg með ólíkindum hvað borgin hefur náð að plata ríkið til að skrifa upp á — ef þessi verðmæta eign þess skilar ekki í þessum 15 milljörðum, t.d. ef skipulagið væri þannig eða aðstæður í efnahagslífinu, eins og við upplifum núna, þróuðust þannig að landið næði ekki að skila þessum 15 milljörðum, ætlar ríkið að tryggja það með því að bæta upp fyrir lægra verð en ef aðstæður þróast þannig að landið reynist verðmætara og meira kemur fyrir, þá fær ríkið ekkert fyrir það. Það rennur inn í verkefnið. Er það nema von, herra forseti, að menn séu farnir að velta því fyrir sér hvort sá samningur sem frumvarpið byggir á og frumvarpið sjálft þar af leiðandi standist lög um opinber fjármál?

Næst segir í þessum kafla eða skömmu síðar:

„Samkvæmt samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp með sérstakri lagasetningu til að standa undir hluta af fjármögnun verkefnisins eða um 60 (nettó) milljarðar kr.“ — Þetta er nú mikilvægt atriði, 60 milljarðar nettó. Kostnaðurinn við að setja þetta allt upp greiðist ekki af gjöldunum. — „Er gjöldunum ætlað að standa straum af stofnframkvæmdum, fjármögnun og afleiddum kostnaði.“

Það er sem sagt verið að leggja upp með að það verði sett ný gjöld á íbúa höfuðborgarsvæðisins og aðra sem hingað koma, væntanlega þá til eilífðar, en spurningin er: Er þetta hin eiginlega rekstraráætlun borgarlínunnar? Er ástæðan fyrir því að menn hafa ekki einu sinni fyrir því að setja saman rekstraráætlun fyrir þetta gríðarlega dýra verkefni sú að yfirvöld sjá fyrir sér að geta einfaldlega innheimt það af vegfarendum sem þarf til að standa undir rekstrinum með gjaldtöku og skattlagningu þannig að það skipti engu máli hvort verkefnið er á einhvern hátt arðbært eða hversu mikið rekstur þess muni kosta, ríkið geti alltaf leitað í vasa skattgreiðenda til að halda þessu gangandi og gert þetta þar með að eilífðarvandamáli, eilífðarbagga á skattgreiðendum.

Svo bætist það auðvitað við að þeir sem þannig borga, þ.e. borga þessi tafagjöld, eru einmitt fólkið sem ekki nýtir sér þjónustuna og þarna er komið enn eitt atriðið sem er afar sérkennilegt í þessu reikningshaldi öllu og pólitíkinni á bak við þetta, að það virðist vera lagt upp með það að þeir sem nýta ekki þjónustuna, en verða í staðinn fyrir auknum umferðartöfum, eigi að borga þetta út í hið óendanlega og þess vegna þurfi ekki einu sinni rekstraráætlun. Þeir sem sitja fastir í bílunum sínum eftir þrengingarnar muni borga það sem þarf til að halda þessu gangandi. Ég bið virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.