150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:06]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann velvirðingar, ég var alls ekki, og það var mjög fjarri mér, að reyna að láta hann líta út fyrir að vera kjánalegan. Ég var í raun alveg sammála honum. Og bara svo ég leiðrétti mig líka þá er Orkusjóðurinn sjálfur aðeins með u.þ.b. 25 millj. kr. á ári til úthlutunar. Hann hefur haft það undanfarin ár. Hann hefur hins vegar verið nýttur í verkefni eins og t.d. að bæta einangrun húsa, en svo virðist sem það sé sérstaklega heppilegt að nýta sjóðinn í slík verkefni, mögulega vegna sérþekkingar þar innan húss, og eins er að mörgu leyti mjög heppilegt að hann sé jafn sveigjanlegur og raun ber vitni til að taka við slíkum verkefnum.

Mig langar að spyrja í seinna andsvari við hv. þingmann um áhyggjur sem komið hafa fram í fréttum í gær og í dag, þ.e. áhyggjur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands af því að fram hafa komið mjög metnaðarfull markmið varðandi orkuskipti í nýrri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna loftslagsmála, bara mjög metnaðarfull, en bæði Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands hafa lýst áhyggjum sínum af að aðgerðirnar séu ekki nægjanlega metnaðarfullar til að ná markmiðinu. Þess vegna langaði mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því og hvaða leiðir hann sjái til að bregðast við því. Nú hefur t.d. ON staðið sig mjög vel í uppbyggingu hleðslustöðva. Væri ástæða til að virkja önnur orkutengd fyrirtæki, eins og t.d. Rarik, til að fjölga hleðslustöðvum um landið svo fleiri séu á hverjum stað?