150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil byrja á því að taka undir það sem hv. þingmaður sagði um stofnanir úti á landi. Við lærðum það í nýliðnu ástandi að hægt er gera ótrúlegustu hluti heima hjá sér eða alla vega án þess að vera á vinnustaðnum, en það virðist þurfa einhverja neyð til þess að fólk prófi tæknina og leggi sig fram við að nýta hana. En það var ekki það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um, ég gleymi hvað ég hef lítinn tíma.

Eins og kemur fram í ræðu hv. þingmanns sjáum við fram á ákveðna uppgangstíma í orkumálum almennt, hérlendis sem annars staðar, og ég velti því fyrir mér, vegna breytingartillögu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um að bæta við fagráði í fjármögnun verkefnanna, 4. gr. frumvarpsins, hvort það sé þá ekki einséð að í iðnaði, þar sem við vitum að er að verða mikill uppgangur og nýsköpun, vonandi alla vega, (Forseti hringir.) þurfi sérstaklega að gæta að því að fagleg sjónarmið ráði för (Forseti hringir.) við úthlutun fjár.