150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:20]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vísa í fyrra álit hvað þetta varðar. Þegar maður skoðar frumvarpið er verið að fjalla um hlutverk og stjórn. Ef maður horfir á breiðu línurnar, hvað er undir, þá er tvennt sem er meginþunginn í frumvarpinu. Ég verð að segja að mér finnst mjög jákvætt að þetta hafi verið til umræðu í nefndinni, að það hafi bara yfirleitt verið til umræðu með hvaða hætti ætti að skipa þessa stjórn. Ég er pólitískt þeirrar skoðunar að ráðherra hverju sinni eigi að hafa svigrúm og að við eigum ekki að afmá pólitík úr pólitíkinni. En vegna þess að ég er þeirrar skoðunar er ég líka mjög áfram um það að leikreglur séu skýrar og þessi málefnalegu sjónarmið, sem t.d. stjórnsýslulögin kalla á, séu römmuð skýrt inn í lagasetningunni sjálfri. Síðan er það útfærsluatriði (Forseti hringir.) hvort menn ætli að fara þá leið að einstakir aðilar eða félög hafi svigrúm til að tilnefna eða hvernig við förum að því.