150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Burt séð frá lagatúlkunum eða þess háttar fer maður að velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að boða fund með kannski 15 mínútna fyrirvara eða 20 mínútna fyrirvara. Þarf að vera fimm mínútna fyrirvari? Mér finnst það eitt og sér vera ágætisspurning. En hins vegar verð ég að vekja athygli á því að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson er á mælendaskrá núna og var það þegar þessi fundur var boðaður. Nú veit ég ekkert um efni þessa fundar, en í sambandi við áheyrnarfulltrúasetu almennt er ég þeirrar skoðunar að þingflokkar eigi að hafa rétt á nefndarsetu í hverri nefnd. Það myndi fljótlega skapa mætingarskyldu fyrir þingmenn, sem væri fyrir litla flokka, sérstaklega agnarsmáa, eins og tveggja eða þriggja þingmanna þingflokka, algjörlega óbærileg samkvæmt eðlisfræðilögmálum. En á móti legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.