150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja að þessu vegna þess að þetta er efni sem mig langaði að fjalla aðeins meira um í ræðu minni áður en ég rann út á tíma, þ.e. hvernig þessi stjórn er skipuð. Fram kemur í fyrra nefndaráliti meiri hlutans að nokkur umræða hafi orðið um skipun stjórnar í nefndinni. Nefndin áréttar, eins og nefndir gera — stundum er eitthvað áréttað sem þegar hefur komið fram, í stað þess að breyta því er eitthvað áréttað — að nú þegar sé til staðar reglugerðarákvæði um skyldu til að leita umsagnar Orkustofnunar þegar verið er að sýsla með þetta. Allt í góðu með það. Það er alla vega ekki slæmt.

Síðan kemur fram það sem mér finnst áhugavert í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Jafnframt sé skýrt að þegar kemur að skipun í stjórn sé farið að hæfisreglum stjórnsýslulaga, og á sama hátt sé gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga við mat á mögulegu vanhæfi stjórnarmanns við meðferð og afgreiðslu mála.“

Það sem mér finnst áhugavert við þetta er í raun og veru að það virkar rosalega staðlað. Hins vegar erum við líka vön því hér á Íslandi að það sé tiltölulega auðvelt fyrir ráðherra og aðra aðila innan stjórnkerfisins að ráða einhvern sem fær kannski eitthvert forskot vegna tengsla. Eða þá að þeim sem þykir óæskilegur, t.d. vegna stjórnmálaskoðana eða einhvers slíks — hann gæti verið t.d. hagfræðiprófessor eða eitthvað slíkt, einhver sem er ekki í náðinni hjá ráðherra hverju sinni — sé þá einhvern veginn gert erfiðara fyrir að standast hinar og þessar reglur eða viðmið. Eftir stendur að alltaf þegar ráðið er í starf, alltaf þegar einhver er skipaður af ráðherra eða eitthvað þess háttar, er huglægt mat einhvers staðar og sennilega á nokkrum stöðum í ferlinu. Þetta huglæga mat fer ekki neitt. Þess vegna finnst mér varhugavert að setja í lög að ráðherra skipi stjórn, og treysta því að þessi staðlaða umgjörð (Forseti hringir.) dugi til að koma í veg fyrir að ómálefnalegar ástæður ráði því að viðkomandi fái starfið. Mér finnst það ekki duga til. (Forseti hringir.) Í stuttu máli: Ég treysti ekki íslenskum stjórnvöldum svo vel (Forseti hringir.) sjálfur.