150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það eina sem við erum að biðja um er að eins og með Matvælasjóð verði sett fagráð undir sjóðinn. Kallað var eftir því að í ráðinu þyrfti að sitja fólk úr fræðasamfélaginu, nýsköpunargeiranum og atvinnulífinu, til að tryggja að þessi ráðherraskipaða stjórn, fjögurra manna stjórn í tilfelli Matvælasjóðs, þriggja manna í tilfelli Orkusjóðs, hafi aðgang að fagráði sem veiti henni upplýsingar út frá miklu fleiri sjónarhornum, eins og ég fór yfir áðan. Það eru svo gríðarlega mörg sjónarmið sem verða að koma fram því að þetta er svo ofboðslega víðtækt svið sem taka þarf tillit til í vinnu við að útdeila þessu fjármagni.

Hvernig var það gert varðandi Matvælasjóð? Jú, það var bara vísað til þess að í lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun væru nákvæmlega þessi atriði, en tæknirannsóknir og nýsköpun eru klárlega partur af því sem Orkusjóður á að sinna við orkuskipti, til að tryggja samkeppnishæfni. Hvers vegna? Jú, af því að menn telja það nauðsynlegt í tvennum lögum, um Matvælasjóð og um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Það er mikilvægt (Forseti hringir.) til að tryggja fagleg sjónarmið. Ráðherra verður að svara því hvort það sé hún sem standi í vegi fyrir því að nefndin (Forseti hringir.) setji fagráð undir Orkusjóð.