150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var búinn að spá þessari spurningu. Ég var meira að segja farinn að skrifa niður félagslegu áhrifin. Ég ætlaði einmitt að nefna þau af því að það sem við viljum fá, alla vega til að byrja með, er stærðargráðan af áhrifunum. Hún getur verið nokkrar milljónir, tugir milljóna eða hundruð milljóna. Hvaða stærðargráðu er um að ræða? Byrjum þar. Það á ekki að vera svo erfitt.

Hitt er síðan að kostnaðarmat og áhrifamat vegna frumvarpa tengjast markmiðum stjórnvalda. Stjórnvöld leggja yfirleitt fram frumvörp til laga og áætlanir með einhverjum markmiðum sem koma yfirleitt fram í fjármálaáætlun stjórnvalda þar sem þau eiga að gera grein fyrir stefnumörkun sinni. Þau hljóta að leggja fram mál til að ná fram þeirri stefnumörkun. Í stefnumörkun stjórnvalda er alla vega verið að reyna að vinna að velsældarmarkmiðum. Slík velsældarmarkmið eru ekkert endilega með krónutöluábata heldur er t.d. um að ræða aukin réttindi eða aðgengi að til að mynda heitu vatni. Þá er hægt að vera með velsældarmælikvarða sem mælir hversu mörg köld svæði eru, eða vonandi hversu fá, þ.e. hvert hlutfall Íslendinga er sem býr á heitu svæði. Áætlaður ávinningur af þessu til 20 ára er að aðgengi að heitum svæðum Íslendinga eykst um 5%, óháð fólksfjölgun á hverju svæði. Á bak við það er tvímælalaust einhver krónutala, alveg bókað mál, og kannski er hægt að vera með einhvers konar upplýsta ágiskun um það hver hún verður. En það væri alla vega gríðarleg bragarbót að fá tengingu við félagsleg markmið og velsældarmarkmið stjórnvalda.