150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er kjarni málsins og ef ég gæti svarað því á tveimur mínútum væri ég annars staðar en hér. En það sem gerir þessa spurningu svo áhugaverða er það sem kemur fram í 2. gr. frumvarpsins, þessar fjóru stóru stefnur sem liggja til grundvallar. Allar mikilvægar, allt eitthvað sem skiptir okkur sem samfélag, bæði land og þjóð, gríðarlega miklu máli. Það er ekkert erfitt að ímynda sér aðstæður þar sem eitt rekst á annars horn pólitískt séð. Eitthvert verkefni gæti komið til greina við úthlutun úr sjóði sem hentar einni af þessari stefnu en hentar ekki annarri, það er klassískt dæmi sem gæti komið upp. Við þær aðstæður eru mjög miklar líkur á því að pólitíkin kæmist að annarri niðurstöðu en fagaðilar. Og ekkert endilega verri, pólitíkin er kannski líklegri til að taka tillit til fleiri atriða og jafnvel bara betri í stóru myndinni. En þetta þarf að vera uppi á borðum. Ég get mjög auðveldlega séð þær aðstæður fyrir mér að svoleiðis gerist. Síðan er tekin afstaða. Hún er ekki gegnsæ og almenningur upplifir að þarna hafi eitthvað óhreint átt sér stað. Það getur verið einhver skýring fyrir hendi en hún kemur ekki upp á yfirborðið af því að það er verið að spila einhvern leik.

Það er kannski þetta sem við erum að tala um. Við komum alltaf að þessu aftur og aftur. Okkar er mjög tamt að tala um traust og við viljum gjarnan auka traust almennings á stjórnvöldum almennt, ekkert endilega í því máli sem hér er, ég er að tala um stóru myndina. En ég trúi því að gegnsæi og leikreglur séu lykilatriði þar, ekkert endilega að allir séu sammála leikreglunum heldur bara að menn viti að þær liggi til grundvallar. (Forseti hringir.) Það er alltaf þessi núningur. Hann þarf ekki að vera til staðar en hann er líklegur til að vera það ef ekki er gegnsæi.