150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður er þingmaður Viðreisnar og búin að vinna sem ríkissaksóknari, er það ekki, (Gripið fram í.) saksóknari já. Ég geri ráð fyrir því að hún hafi frekar góðan skilning á atvinnulífinu og góðum stjórnarháttum og slíku. Mig langar að spyrja þingmanninn í ljósi þess að ráðherra leggur fram frumvarpið og í því er lagt til að ráðherra sjálfur skipi þrjá aðila og ákveði eftir hvaða reglum þeir starfa. Og svo ákveða þessir aðilar hvernig deila skuli út þessu fjármagni, sem mér er sagt að hafi á ákveðnum tímapunkti slagað upp í kvartmilljarð. Þessum aðilum er, samkvæmt reglugerð sem ráðherra setti á sínum tíma, aðeins skylt að leita umsagnar hjá Orkustofnun eða hjá öðrum sérfræðingum. Með leyfi forseta:

„Áður en tillaga er gerð um styrki eða lánveitingu úr Orkusjóði, eða niðurfellingu á endurgreiðsluskyldu lána skv. 15. gr., skal ráðgjafarnefnd leita umsagnar Orkustofnunar eða annarra sérfræðinga eftir því sem við á.“

Það er svolítið opið. Ef þeim finnst það ekki eiga við þá segja þeir bara: Mér finnst það ekki eiga við og þá geri ég það ekkert. Og ráðherra er hæstánægður og segir: Já, þetta lítur vel út, strákar, sem ég valdi sjálfur í nefndina, þetta er flott. Eru ekki allir sammála um að þetta sé frábært mál? Hvað segið þið að þetta sé mikið? Kvartmilljarður? Flott mál. Við getum komið þessu á réttan stað.

En að öllu djóki slepptu, eru það góðir stjórnarhættir að einn aðili ákveði lögin og síðan reglurnar, og skipi alla þrjá aðilana sem eiga síðan að útdeila almannafé sem ráðherra samþykkir? Eru ekki til betri venjur og stjórnarhættir en þetta?