150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:31]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nálgun hv. þingmanns á málið var sannarlega áhugaverð og ég get svo sem tekið undir hana að mörgu leyti. Í rauninni var áhugaverð tengingin við orkumál á Íslandi í heild og þær dýrmætu auðlindir sem við eigum og þau gríðarlegu verðmæti sem eru í auðlindinni sem orkan okkar er. Um það er ekki rifist.

Það sem vakti hins vegar áhuga minn á að koma í andsvar við hv. þingmann í þessu samhengi — hann vaknaði reyndar jafnvel í fyrri ræðu hv. þingmanns og í andsvörunum sem við áttum þá — var dýpri umræða um málin í stærra samhengi. Við erum í raun og veru að ræða minni háttar mál hér. Eins og hefur komið fram lætur málið ekki mikið yfir sér í fjölda greina og öðru slíku. Það snertir samt alveg ótrúlega marga þætti og, eins og hv. þingmaður kom inn á, snertir það í raun og veru gríðarlega mikla hagsmuni.

Það sem kannski skortir svolítið á og mig langar að inna hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson eftir er hvort við ættum e.t.v. stundum að taka dýpri umræðu hér í þingsal um grundvallarmálefni eins og orkumál, (Gripið fram í: Eins og afglæpavæðingu.) eins og afglæpavæðingu, en við gerum kannski oft. Við erum alltaf að snerta á einhverjum örlitlum hlutum innan viðfangsefnisins. En stundum þurfum við að ræða stóru myndina (Forseti hringir.) líka.