150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða. Ef fjármálareglurnar og lögin um opinber fjármál eru of þröng, sníða okkur of þröngan stakk og eru það sem stjórnvöld beita fyrir sig í þessu sambandi þá er það auðvitað alvarlegt ef fjármálareglurnar eru beinlínis farnar að vinna gegn okkur þannig að verulegir hagsmunir eru undir. En þetta er auðvitað trúarsetning ákveðinna stjórnmálaafla, að einkaframtakið leysi allan vanda þrátt fyrir að hvert áfallið ríði yfir þá hugmyndafræði á fætur öðru og er auðvelt að tína þau til en verður nú ekki gert hér. Þó er rétt að benda á að það áfall sem við glímum við núna, heimsfaraldur kórónuveiru, staðfestir auðvitað hversu mikilvægt það er fyrir okkur að eiga trausta öfluga innviði, traust net í samfélaginu, trausta samfélagslega sjóði. Það er auðvelt að sannfæra fjárfesta og okkur öll um að við eigum að vinna að því að fjármagna svona stór verkefni sem við þurfum að gera í ríkum mæli á næstu árum með sameiginlegum sjóðum og með almennri skynsemi. Umgjörðin hefði átt að vera klár núna. Við erum auðvitað að fara í gegnum fyrsta fasa orkuskipta og hefðum þurft að vera búin að taka umræðuna um hvernig gjaldtöku eigi að vera háttað almennt í umferðinni.