150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurningin um forgangsröðunina er stærri en þessi sex verkefni og hún er stærri en samgönguáætlunin eins og hún leggur sig, því að það sem vantar, eins og ég sagði, er til að byrja með stóra forgangsröðunin yfirleitt. En hún verður að byggjast á einhverju sem er ekki til. Við vitum ekki og Vegagerðin veit ekki hvaða vegir eru á landinu, hvaða vegtegundir svokallaðar. Vegagerðin veit hverjar eru æskilegar vegtegundir, hvaða vegur ætti að liggja frá A til B en þegar Vegagerðin er spurð: Hvaða vegur er raunverulega á milli A og B þá segir hún: Ég veit það ekki. Sem er dálítið merkilegt.

Það sem okkur vantar er einfaldlega ákveðin glansmynd af öllu landinu, að svona væri samgöngukerfið fullkomið miðað við það sem við vitum best núna. Þá væru hafnartengingar og flugvallartengingar og allt þetta inni í því. Ef samgöngukerfið væri svona þyrftum við ekki að fara í neinar nýjar framkvæmdir, bara viðhald. Þá værum við búin með uppbyggingu á samgönguframkvæmdum miðað við allt sem við vitum. Það er það sem vantar, því að ef við værum með það þá gætum við auðveldlega borið núverandi ástand, sem við vitum ekki einu sinni hvernig er sem er rosalega kaldhæðnislegt, saman við þá glansmynd sem við ættum að hafa. Til þess að komast sem hraðast úr núverandi ástandi í fullkomið ástand þarf að byrja á þessum augljósu vegtengingum og hafnartengingum og ýmsu slíku sem skapar mestan ávinning, mestan hagnað, og sem skapa aukin gæði á sem stystum tíma með sem einföldustum hætti. En við erum með hvorugt. Við erum ekki með glansmyndina og við erum ekki með forgangsröðunina. Og án þess að vita hvernig vegurinn er raunverulega á milli A og B er ekki einu sinni hægt að búa til þessa forgangsröðun. Vandamálið er þegar allt kemur til alls miklu dýpra en hvort þetta er rétt forgangsröðun á þessum sex verkefnum.