150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla um fyrirvarann sem fulltrúi Viðreisnar var með á þessu máli og atriði sem varða forgangsröðun verkefna, bæði vegna ástandsins og í rauninni vegna þeirra atriða sem komið var inn á varðandi kostnaðarábatamat. Kannski er þetta á pínulítið hærra stigi með tilliti til ákveðinnar pólitíkur hjá Viðreisn varðandi samvinnuverkefni í eðli sínu. Ég get t.d. vel tekið undir það að samvinnuverkefni eigi að einhverju leyti heima sem hluti af framkvæmdum sem hið opinbera kemur að. En ég hef verið að lýsa þeim forgangsröðunarlista sem þarf að liggja fyrir áður en hægt er að taka ákvörðun um samvinnuverkefni. Við erum nú einu sinni að borga í ríkissjóð alla þessa skatta af ýmsu til að fjármagna síðan sameiginlegar samgönguframkvæmdir. Þar reynum við að gæta ákveðinnar sanngirni í forgangsröðun á verkefnum. Ef við gerum að samvinnuverkefnum eitthvað af þeim verkefnum sem við teljum vera raðað ofarlega á lista vegna sanngirnisraka er það í rauninni mjög ósanngjarnt gagnvart aðilum á því svæði, að þeir þurfa í rauninni að borga tvöfalt, annars vegar fyrir að hafa komið málinu ofarlega á sanngirnislista, hafa kannski beðið með það lengi í staðinn fyrir að flýta framkvæmdum á annan hátt, og hins vegar þegar verkefnið er síðan gert að samvinnuverkefni þá eru þeir búnir að bíða, þurfa að taka á sig kostnað við biðina og borga aukalega fyrir (Forseti hringir.) með notendagjöldum. Ég er bara að velta fyrir mér (Forseti hringir.) þessum forsendum samvinnuverkefna.