150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, sem var heiðarlegt, enda alveg ljóst að ég kom þingmanninum í nokkurn bobba með þessari spurningu af því að ég veit sem er, að því miður gafst ekki tími til að vinna þetta mál. Hér erum við að tala um heildarendurskoðun á lyfjalögum, sem er náttúrlega ekkert smáræði, en ég ætla nú að tala um það í ræðu minni.

Í nefndaráliti er fjallað um mönnun lyfjabúða og það skilyrði sem verið er að setja inn, að að jafnaði séu tveir lyfjafræðingar að störfum í lyfjaverslunum. Í nefndaráliti kemur fram að meiri hlutinn telji þá kröfu eðlilega, en í því felist ekki skylda að þeir veiti alltaf þjónustu á sama tíma, t.d. ef annar bregður sér frá vegna umsamins matartíma.

Nú eru lyfjafræðingar eina starfsstéttin í heilbrigðisþjónustunni sem viðlíka ákvæði gildir um, að það verði alltaf að vera tveir á staðnum. Hvergi annars staðar á Norðurlöndunum er að finna slíkt ákvæði. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að loka þurfi lyfjaversluninni ef lyfjafræðingur boðar skyndilega forföll, ef lyfjafræðingur þarf að fara til læknis, ef lyfjafræðingur þarf að bregða sér frá vegna veiks barns eða vegna eigin veikinda.