150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:47]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni, flutningsmanni nefndarálits, fyrir ítarlega yfirferð. Lyfjalög eru ekki lítill bálkur og mikils virði að til þeirra sé vandað. Lyf eru stórkostleg og bjarga lífi fólks og það er mikils virði að um þau sé vélað af kunnáttu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta frumvarp sé tilbúið til að fá umfjöllun þingmanna í þingsal og staðfestingu á því hvort þetta verði vönduð lög.

Síðan hef ég auðvitað, eðli málsins samkvæmt, sem landsbyggðarþingmaður áhyggjur af lyfjaaðgengi íbúa á landsbyggðinni. Ég hafði væntingar um að með nýjum lögum yrði búið tryggilegar um hnútana að mörgu leyti þannig að aðgengi fólks í dreifbýli eða í minni þéttbýliskjörnum yrði tryggt með einhverjum hætti í lögum. Er það álit hv. þingmanns að ekki sé þörf á því? Er það ásættanlegt að við séum einhvers staðar innan sviga í lögunum, í einhverri undirgrein eða á einhverjum undanþágum hvað lyfjaafhendingar snertir? Við þekkjum það auðvitað að það heyrir til algjörra undantekninga að þessar lyfsölur séu reknar á vegum heilbrigðisstofnana. Það eru lyfjasölur víða úti um land en það heyrir til sömu undantekninga að þar séu starfandi lyfjafræðingar og það er sennilega bara nánast ókunnugt.