150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi lyfjanefndirnar, skulum við segja, þ.e. bæði Landspítalans og Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar, eiga þær, og það er ákvæði um það í lögunum, að vera til ráðgjafar fyrir allar heilbrigðisstofnanir landsins. Lyfjanefnd Landspítalans tekur ákvarðanir sem munu eiga við um allar heilbrigðisstofnanir landsins. Út af því meðal annars þykir ekki skynsamlegt að forstjóri Landspítalans skipi nefndina heldur verði það verkefni frekar á hendi heilbrigðisráðherra. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan getur það orðið val ráðherra að fulltrúar eða starfsmenn annarra heilbrigðisstofnana en Landspítalans geti komið að þessari nefnd eftir því hverja ráðherra metur hæfasta á hverjum tíma.