150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[17:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um heildarendurskoðun á lyfjalögum. Þá er eins gott að maður mæti vel nestaður í pontu. Þrátt fyrir að við séum hér á lokadögum þessa vorþings er þetta þess háttar mál að það er ekki hægt að rumpa því af án þess að láta málið sig varða.

Ég vil byrja á að lýsa því yfir hér í þingsal að nefndinni var gefinn tími í rúma klukkustund, mögulega eina og hálfa klukkustund, til að ræða þetta viðamikla mál, heildarendurskoðun á lyfjalögum, til að við gætum farið yfir drög að nefndaráliti. Er það gott og ég vil þakka hv. framsögumanni fyrir að hafa gefið nefndinni tíma til að ræða þó það. Eftir þá yfirferð og þá umræðu, þar sem ég punktaði hjá mér hvað var samþykkt af þeim ábendingum sem maður kom með og hvað ekki, tók ég ákvörðun um að vera á málinu með fyrirvara. Átti minn fyrirvari að snúast um hversu óábyrgt það er af stjórnvöldum að keyra í gegn heildarendurskoðun á lyfjalögum sem er gríðarlega mikilvægur lagabálkur og má ekki afgreiða af neinni léttúð.

Eftir að hafa séð breytingartillögur og nefndarálit eftir þennan fund rann upp fyrir mér að þrátt fyrir að annað hefði verið sagt var ekki tekið tillit til allra þeirra punkta sem var þó talað jákvætt um af hálfu meiri hluta. Þá bárust nefndinni einnig töluverðar athugasemdir eftir að nefndarálit leit dagsins ljós. Þá sá ég að ljóst væri að ég yrði að taka mig af umræddu áliti en ekki vera á því með fyrirvara. Það var því miður of seint en ég verð að lýsa því yfir hér að ég get ekki stutt þetta. Ég get ekki stutt þessi vinnubrögð.

Lyfjalög innihalda ýmsar aðgerðir og veita heimildir. Þau veita stjórnvöldum heimildir sem eru þess eðlis að þær geta haft verulegar afleiðingar fyrir fólk, þ.e. ef fólk brýtur þær reglur sem eru í ákvæðum laganna. Þegar svo er sér maður alveg fyrir sér hvað gerist ef lögin eru óskýr, ef lögin eru þess eðlis að þau stangast á. Ef lyfsali missir leyfi til reksturs, ef lyfsali getur búist við sektargreiðslum, ef lyfsali getur búist við að þurfa að sæta refsingum hvers konar erum við auðvitað í mjög vondum málum þegar við afgreiðum út úr þingsal lög sem ekki ganga upp lagalega séð. Af því að brot gegn þessum lögum varða sektum eða fangelsi, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Hvers vegna er ég að hafa orð á þessu? Jú, vegna þess að í ábendingum umsagnaraðila um frumvarpið kemur fram að það eru ákvæði í lögunum sem stangast á. Þegar mál er ófullbúið og þarf mikla yfirlegu dugar ekki að ætla að afgreiða það á örfáum klukkutímum rétt fyrir þinglok. Þetta er mikilvægt mál. Það er löngu tímabært að lyfjalögin séu endurskoðuð en það má ekki gera það með þessum hætti, herra forseti. Það var mælt fyrir málinu í lok síðasta árs og umsagnarfrestur var fram í miðjan janúar. Þá hófust gestakomur í nefndinni. Það er því í rauninni ekki heiðarlegt af hv. framsögumanni málsins að halda því fram í ræðustól að málið hafi verið í vinnslu nefndarinnar allt frá því í lok nóvember þegar hann, líkt og allir þeir sem sitja í nefndinni, vita hvað hv. velferðarnefnd hefur verið að gera síðustu mánuði. Það er ekki sannleikanum samkvæmt að þetta mál hafi verið í vinnslu nefndarinnar allan þennan tíma. Það er það ekki. Mál sem liggja óhreyfð í nefnd eru ekki í vinnslu, þau eru bara í bið. Það var þannig vegna þess að það kom heimsfaraldur sem Alþingi Íslendinga varð að bregðast við og ekki síst hv. velferðarnefnd. Þá var ekki hægt að sinna vinnslu þessa mikilvæga máls á sama tíma. Mér finnst það óábyrgt af hæstv. ráðherra og hv. þingmanni og framsögumanni og meiri hlutanum í nefndinni að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem er verið að gera núna. Mér finnst það óábyrgt. Og mér finnst það miður af því að þetta er mikilvægt mál.

Heildarendurskoðun á lyfjalögum er tæknilega mjög flókið mál. Það er svo flókið að það er auðvelt að missa af mikilvægum atriðum. En það liggur hins vegar ekkert á. Það þarf að vanda sig þegar svona mikilvægt mál er annars vegar. Hér er á harðahlaupum, herra forseti, verið að gera breytingar eftir að málið er afgreitt út úr nefndinni, eftir að búið er að segja að það verði tekið tillit til ábendinga fulltrúa minni hlutans og þeirrar sem hér stendur en svo ratar það ekki inn í nefndarálitið, það ratar ekki inn í breytingartillögurnar. Þetta eru ábendingar sem eru sóttar í umsagnir fagaðila, umsagnir landlæknis, en þær rata ekki alla leið.

Eftir að þetta gerist koma ábendingar og þá er farið í að breyta. Svo erum við komin hingað. Og hvað gerist hér í ræðustól Alþingis? Jú, framsögumaður málsins tilkynnir enn eina breytinguna hér en enginn í nefndinni hefur heyrt neitt um hana. Ég er ekki enn þá búin að ná því hvaða breyting það var af því að ég skildi hreinlega ekki það sem fram fór. Ég veit ekki hvenær ég fæ að sjá þá breytingu. Það skiptir svo sem engu máli enda veðjar meiri hlutinn ekki á stuðning minn í þessu máli. En ég vil bara að það komi fram í lögskýringargögnum með málinu, þegar það verður samþykkt af meiri hlutanum í fullkomnu ábyrgðarleysi, að ég legg ekki blessun mína yfir þessi vinnubrögð.

Í umsögn embættis landlæknis er að finna fjölmargar athugasemdir sem hefur ekki verið tekið tillit til. Eitt meginhlutverk embættisins er að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna, eins og segir í lögum um embætti landlæknis. Sem dæmi um tæknilegar ábendingar sem eru mjög flóknar, bara til að almenningur átti sig á hvað við erum að fást við, ætla ég að leyfa mér að lesa eina ábendingu úr umsögn, með leyfi forseta:

„9. gr. Lyfjaskrár Lyfjastofnunar.

Mikilvægt er að kveða á um að Lyfjastofnun haldi skrá með upplýsingum um sk. DDD lyfja og DDD/pakkningu, sem og ATC flokka lyfja, t.d. í lyfjaverðskrá eða í stoðskrá lyfja. Einnig að í stoðskrá lyfja komi fram hverjar íkomuleiðir lyfs eru.“

Þetta er nú kannski ekki fyrir auman almúgann sem situr í hv. velferðarnefnd að skilja. Ég ætla að nefna aðra ábendingu sem við fengum frá Læknafélaginu en þar segir að „bæta þurfi við skilgreiningu á H-merktum lyfjum, annaðhvort sem sérstökum tölulið eða sem viðbótarmálslið við 7. tölulið um leyfisskyld lyf. Sé það ætlunin að fella einnig niður notkun á H-merkingum Lyfjastofnunar sem hófst frá árinu 2019 eins og fyrirhugað er með S-merkingar lyfja þá þarf það að koma skýrar fram.“

Þetta er ábending um tæknilegt atriði. Þarna þarf maður að kalla inn fólk og fá að vita nákvæmlega faglega um hvað er rætt. Ekki gafst tími til þess.

Ég vil taka annað dæmi úr athugasemdum embættis landlæknis sem hv. framsögumaður gat ekki svarað hér í andsvörum hvernig meiri hlutinn sæi fyrir sér að yrði framkvæmt. Um er að ræða 33. gr. þar sem talað er um heimild lyfjaheildsölu til sölu og afhendingar lyfja beint frá heildsöluleyfishafa eða heilbrigðisstofnunar til almennings. Embætti landlæknis segir að um sé að ræða nýmæli. Þetta er hvorki útfært í greinargerð með frumvarpinu né í nefndaráliti. Það er ekkert minnst á þetta, ekki neitt. Embætti landlæknis sem er eftirlitsstofnun, vöktunaraðili með lyfsölu, segir mikilvægt að ekki verði sett upp sérstakt kerfi utan hins almenna ávísunar- og afgreiðslukerfis. Ég held að við séum alveg sammála um það. En þarna er eitthvert ákvæði sem er svona. Varðandi þetta tiltekna ákvæði 33. gr. bendir embætti landlæknis einnig á að ákvæði 1. mgr. 51. gr. í þessu sama frumvarpi sé í algeru ósamræmi við 33. gr. þar sem gert er ráð fyrir sölu og afhendingu ákveðinna lyfja, enda segir í 1. mgr. 51. gr., með leyfi forseta:

„Einungis er heimilt að afhenda ávísunarskyld lyf gegn framvísun lyfjaávísunar í lyfjabúð.“

Í umsögn embættis landlæknis segir að ekki verði annað séð en að 1. mgr. 51. gr. sé í ósamræmi við 33. gr. þar sem gert er ráð fyrir sölu og afhendingu ákveðinna lyfja beint til almennings frá lyfjaheildsölu og heilbrigðisstofnunum. Það er ekkert útskýrt. Það er engin takmörkun. Þarna verður lagalegur ómöguleiki fyrir hendi sem embætti landlæknis mun ekki geta tekið á. En þá vil ég aftur minna á að ef brotið er gegn ákvæðum þessara laga varðar það sektum eða fangelsi, hvort sem um ásetning eða gáleysi var að ræða. Hvernig ætlar meiri hlutinn á Alþingi að svara fyrir þetta? Það er hægt að gefa út ákæru gegn þeim sem brýtur gegn ákvæðum lyfjalaga sem stangast algerlega á.

Töluverð umræða var í nefndinni um mönnun lyfjabúða og það skilyrði sem verið er að setja inn um að tveir lyfjafræðingar séu að jafnaði að störfum í lyfjaverslunum. Í nefndaráliti kemur fram að meiri hlutinn telji þessa kröfu eðlilega en í því felist ekki sú skylda að þeir séu alltaf beinlínis að veita þjónustu á sama tíma. Og í þessu nefndaráliti — sem er lögskýringargagn sem notað er þegar horft er til hvort verið er að brjóta reglurnar, hvort þurfi að sekta eða fangelsa, þið munið — er tekið fram að í þessu felist ekki sú skylda að þeir séu alltaf beinlínis að veita þjónustu á sama tíma, t.d. ef annar bregður sér frá vegna umsamins matartíma. Lyfjafræðingar eru eina starfsstéttin í heilbrigðisþjónustu sem viðlíka ákvæði gildir um og eftir því sem fram kom hjá gestum í nefndinni er hvergi á Norðurlöndum að finna slíkt ákvæði. Jú, það var töluvert rætt um þetta, það var rætt um smærri byggðakjarna og að það yrði að vera sá sveigjanleiki að Lyfjastofnun gæti gefið undanþágu frá þessari skyldu um að hafa alltaf tvo lyfjafræðinga að störfum á smærri stöðum. Og er það vel. En hvað með stærri staði? Með því að setja þessi orð í nefndarálit, að það sé í lagi að það séu ekki tveir beinlínis að veita þjónustu á sama tíma, að ef annar fer í mat þurfi ekki að kalla inn varamann, hefur það þau lagalegu áhrif, herra forseti, að það er enginn sveigjanleiki gefinn varðandi það að ekki séu alltaf tveir á vakt. Þarna er beinlínis verið að segja að það megi bara vera mjög skammur tími, lögmætur matartími, umsaminn matartími. Þarna er verið að þrengja þetta ákvæði niður í bara ekki neitt. Það er enginn sveigjanleiki. Ef viðkomandi veikist, kemst ekki að morgni, er eins gott að drifið sé í því að finna annan til að leysa viðkomandi af þann daginn.

Það var hins vegar pínulítið skrýtið að heyra það hér áðan í andsvari hv. þingmanns og framsögumanns málsins að það væri alvanalegt að lyfjaverslun starfaði í umboði lyfjafræðings. Já, það er alvanalegt, en hér er verið að koma algjörlega í veg fyrir það. Í þessu frumvarpi og þessu nefndaráliti er algjörlega verið að taka fyrir að það geti nokkru sinni gerst. Það var rætt um nákvæmlega þetta í nefndinni. Er möguleiki í bæ eins og Akureyrarbæ þar sem eru tvær lyfjaverslanir undir sama hatti, segjum bara Lyfju, að það séu þrír lyfjafræðingar í þessum tveimur verslunum en ekki fjórir, bara upp á reksturinn? Að einn geti mögulega verið flökkulyfjafræðingur eða eitthvað slíkt? Eða í Kópavogi eða Vesturbæ? Ef það eru tvö útibú, eitt í Vesturbæ og annað hér í Hafnarstrætinu, væri þetta möguleiki? Nei. Með þessari breytingu er það ekki möguleiki af því að það er verið að herða skilyrðin svo rosalega að lyfjafræðingurinn má bara skjótast í mat. Hann getur ekki einu sinni brugðið sér á slysavarðstofuna með barnið sitt ef það kemur símtal frá skólanum. Það vita allir hvernig staðan er þar. Maður fer ekkert þangað inn fyrir minna en þrjá klukkutíma. Þá verður líklega bara að loka búllunni eða taka sénsinn á að eftirlitsaðilar vakti ekki búðina af því að þá getur verslunin fengið sekt eða lyfjafræðingurinn farið í fangelsi, samkvæmt lögunum.

Í hv. velferðarnefnd var líka talað um þann möguleika að lyfjafræðingur væri í fjarþjónustu en það var ekki samþykkt. Við töluðum um að mikilvægt væri að hafa það inni ef það ætti að leyfa það. Það er einmitt þetta með „í umboði lyfjafræðinga“, að hafa heimild lyfjafræðinga á vaktinni. En það var ekki heimild fyrir því.

Í 82. gr. frumvarpsins er talað um miðlægan gagnagrunn lyfjakorta og rétt er að benda þar á umsögn Læknafélags Íslands en í orðskýringum í 12. tölulið um lyfjagagnagrunninn kemur fram að eftirlitinu sé ætlað að auka öryggi í lyfjaávísunum lækna og vegna eftirlits með lyfjakostnaði. Fyrir liggur að fleiri heilbrigðisstarfsmenn hafa samkvæmt lögum heimild til að ávísa lyfjum, svo sem læknanemar, tannlæknar, lyfjafræðingar og neyðarávísanir og slíkt. Ég get ekki séð að þetta hafi náð að komast í breytingartillögur meiri hlutans. Enn þá á því bara að hafa eftirlit með lyfjaávísunum lækna en ekki hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og annarra.

Það er ýmislegt mjög gott sem hefur verið bætt við en vegna mjög skamms tíma hefur því miður ekki tekist að fara yfir það. Mig langar aðeins rétt í lokin að benda á að mér finnst orka tvímælis þegar gerð er heildarendurskoðun á lyfjalögunum og svona ströng skilyrði sett um starf lyfjafræðings á staðnum að hvorki ráðherra né meiri hlutinn geri neina kröfu um að lyfjafræðingur sé að störfum þegar kemur að lyfsöluleyfi heilsugæslustöðva. Mér finnst það orka tvímælis því að lyfjafræðingar í lyfjaverslunum taka jú á móti ávísunum frá læknum, frá heilbrigðisstarfsfólki, frá hjúkrunarfræðingum, frá ljósmæðrum og öðrum. En í lyfjaversluninni í heilsugæslunni þarf bara engan lyfjafræðing, hvergi. Þar þarf enginn að ritskoða neitt og mér finnst það sérkennilegt. En það er svo margt í þessu máli sem er sérstakt.

Ég hef ekki meiri tíma, því miður, verð að hætta núna. En ég ítreka það að þessi hraðsuða er (Forseti hringir.) hættuleg, bæði almenningi og þeim sem starfa innan þessa geira.