150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[10:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Svona förum við að því að hækka skatta og auka álögur á landsmenn. Svona förum við að því að færa verkefni yfir til verktakanna sem þurfa að fjármagna sig með mun óhagkvæmari lántökum en ríkissjóður gæti sjálfur gert. Hæstv. fjármálaráðherra hefur margítrekað að ríkissjóður sé í mjög góðri stöðu til að fá mjög svo ábatasöm, ef hægt er að segja svo, og kostnaðarminni lán en gengur og gerist. Við vitum að hafið er yfir vafa að með þeirri leið sem nú á að fara mun framkvæmdin verða dýrari. Við vitum að ekkert þak er á því hvað má rukka inn. Við vitum að horft er til næstu 30 ára og við vitum að það skiptir engu máli þó að fólk sé ekki nema með 220.000 kr. útborgaðar, það þarf að borga nákvæmlega jafn mikið til að fá að ferðast um og allir aðrir. Flokkur fólksins getur engan veginn stutt við svona framkvæmdaútfærslu, sem okkur finnst í raun vera götótt. Þrátt fyrir að við þurfum á því að halda að flýta framkvæmdum og annað slíkt vildum við að ríkissjóður sæi sjálfur um það með sínum hagkvæmu lántökum, í stað þess að færa þetta allt saman í fangið á íslenskum skattgreiðendum.