150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[10:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka þinginu fyrir að ljúka þessu mikilvæga máli. Við höfum verið að leita allra leiða til að auka framkvæmdir í landinu, bæði með stórauknu fé úr ríkissjóði, reyndar líka að taka lán fyrir því, en einnig leita annarra leiða. Hvaða leið er hér um að ræða? Frumvarpið er heimild og það er útfært á þann veg að þingið kemur að ákvörðun um hvaða tilteknu framkvæmdir farið verður í, en heimildarákvæðið er til staðar. Hver er fyrirmyndin? Jú, það er Hvalfjarðargangamódelið og það er sú þróun sem orðið hefur um allan heim. Við höfum sérstaklega horft til Norðmanna, sem hafa náð þeim árangri með því að fara þessa leið og með nýsköpun, að lækka verð um allt að 20% á framkvæmdum sem farið er í. Það er sú leið sem við erum að fara og ég held að almenningur í landinu skilji nákvæmlega hvað við erum að tala um. Ávinningurinn er alltaf til staðar fyrir þann sem velur að fara nýju leiðina, þegar framkvæmd er lokið, og engin gjaldtaka hefst fyrr. Það verður alltaf ódýrara en að fara gömlu leiðina, það sparar peninga.