150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir .

944. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta atvinnuveganefndar fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir, svokallaðan Ferðaábyrgðasjóð. Þeir sem flytja málið eru sú sem hér stendur og hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Sigurður Páll Jónsson.

Megininntak þessa máls er að stofna eigi Ferðaábyrgðasjóð til að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi skipuleggjanda eða smásala og tryggja hagsmuni neytenda. Sjóðurinn skal vera í vörslu Ferðamálastofu sem einnig tekur ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum. Ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Ráðherra er heimilt með samningi að fela hæfum aðila þjónustu við sjóðinn.

Ég ætla að stikla á stóru í þessu máli og vísa til gildandi réttar varðandi lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem tóku gildi 1. janúar 2019 og eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Pakkaferð er samsetning a.m.k. tveggja mismunandi tegunda ferðatengdrar þjónustu vegna sömu ferðar sem felur í sér a.m.k. tvennt af eftirfarandi: flutning farþega, gistingu, leigu bifreiða eða bifhjóls, eða aðra ferðatengda þjónustu sem er ekki í eðlilegum tengslum við farþegaflutning, gistingu eða leigu ökutækja. Í 12. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um rétt ferðamanna til fullrar endurgreiðslu án ótilhlýðilegrar tafar og eigi síðar en 14 dögum eftir að pakkaferð er aflýst eða hún afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna. Af framangreindu leiðir að ferðaskrifstofum sem hafa selt pakkaferðir sem hafa verið afpantaðar eða þeim aflýst vegna útbreiðslu kórónuveirunnar ber að endurgreiða ferðamönnum allar greiðslur innan 14 daga frá aflýsingu eða afpöntun.

Vandi ferðaskrifstofa vegna heimsfaraldursins kórónuveirunnar hefur verið verulegur og faraldurinn haft mikil áhrif á ferðaþjónustu um allan heim og hafa íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu ekki farið varhluta af þeim. Það hefur verið gripið til ýmissa aðgerða hér á landi til að mæta þeim vanda jafnt sem í öðrum ríkjum Evrópu. Í flestum ríkjum Evrópu hafa ekki verið gerðar breytingar á lögbundnum rétti neytenda til fullrar endurgreiðslu en ferðaskrifstofum veitt aðstoð við endurgreiðslukröfur.

Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður, Ferðaábyrgðasjóður, sem hafi það eina hlutverk að endurgreiða ferðamönnum þær greiðslur sem þeir eiga rétt á vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna, og eftir atvikum ferðaskrifstofum hafi þær þegar endurgreitt ferðamönnum. Þannig er tilgangur sjóðsins skýrlega afmarkaður og honum aðeins ætlað að bregðast við tímabundnum vanda ferðaskrifstofa vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem við þekkjum öll en jafnframt að gæta innbyrðis jafnræðis milli þeirra.

Það stendur til af hálfu stjórnvalda að endurskoða fyrirkomulag trygginga vegna sölu pakkaferða. Hefst sú vinna trúlega strax á haustmánuðum og verður m.a. litið til fyrirkomulags á Norðurlöndum í því sambandi.

Ég sem framsögumaður þessa máls og formaður atvinnuveganefndar, en meiri hluti hennar flytur þetta mál, vil gera þingheimi grein fyrir því að í vinnu ráðuneytisins hafa komið fram betri og skilvirkari útfærslur á því meginmarkmiði að styðja við ferðaskrifstofur, greiða neytendum til baka fyrir þær ferðir sem ekki hafa verið farnar og uppfylla þar með lög um pakkaferðir. Fyrir liggur tillaga þess efnis sem mun verða flutt af meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég tel því rétt að við vísum málinu aftur til atvinnuveganefndar þar sem fyrir liggur tillaga um betri og skilvirkari útfærslu á þessu sama markmiði.

Ég óska eftir því að málinu verði vísað til atvinnuveganefndar og að við tökum sem fyrst fyrir nýja útfærslu og komum því aftur inn í þing til umræðu. Ég boða það að fundur í atvinnuveganefnd verður auglýstur innan mjög skamms tíma og við reynum að vinna þetta hratt og vel þar sem mikil samstaða er um að koma frumvarpinu í gegn á þessu þingi til að mæta neytendum og erfiðleikum þeirra ferðaskrifstofa sem hafa orðið illa úti vegna kórónuveirufaraldursins.