150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir .

944. mál
[12:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir (Ferðaábyrgðasjóður) sem er núna hið besta mál. Frumvarpið sem kom áður inn var svo arfailla unnið að það braut lög og mér blöskraði svo hrikalega, þegar ég sá það frumvarp á sínum tíma, þar sem þeir sem voru að fara í ferðalag, hvort sem það voru unglingar, eldri borgarar eða aðrir, áttu að vera að lána ferðaskrifstofum það sem þeir voru búnir að setja inn á greiðslu fyrir ferðir. Mér blöskraði það mikið, þegar frumvarpið kom fram, að ég steig hérna uppi pontu og í fyrsta skipti síðan ég kom á þing reif ég bara viðkomandi frumvarp hér í ræðustól. Sem betur fer var það dregið til baka og nú kemur fram mun betra frumvarp frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég benti einmitt á það á sínum tíma að ef það væri vilji löggjafans að tryggja að ferðaskrifstofur yrðu ekki fyrir gífurlegu tjóni vegna þeirrar lögbundnu skyldu að endurgreiða ferðir sem eru felldar niður þá ætti ríkið að vera með sjóð og sjá um þetta. Það er auðvitað rétta leiðin ef vilji er til að gera það en það er eiginlega með ólíkindum að einhverjum skuli hafa dottið í hug að setja það í lög að svipta fólk lögbundnum réttindum til að bjarga ferðaskrifstofunum. Það er svo fáránlegt að ég er eiginlega enn orðlaus yfir því og þetta sýnir það, og það sást fyrr í dag, að við verðum að vanda okkur betur í allri lagasetningu og sérstaklega getum við ekki sætt okkur við eitthvað sem er illa unnið eða sæmilega unnið eða ágætt. Við verðum að gera hlutina eins vel og hægt er. Ég vona svo heitt og innilega að hér séum við búin að finna lausnina og ég styð þetta og bað einmitt um þessa leið þannig að þetta er bara frábært og vonandi verður þetta okkur lexía um það að reyna ekki að þvinga í gegn lög sem eru hreinlega sett upp til að brjóta önnur lög.