150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[12:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er margt við þetta mál að athuga. Þetta er risamál sem ég tel að hefði átt að fara í betri meðferð, fá fleiri að borðinu og vinna með tilliti til þeirra gagna sem hafa komið fram hjá ýmsum nefndum sem hafa verið skipaðar einmitt til þess að taka á eignarhaldi á jörðum, hversu stórar þær geta orðið og umfangsmiklar í eigu eins aðila. Síðan hafa aðrir aðilar viljað nálgast þetta út frá þjóðerni. Við erum mótfallin því í Viðreisn að jarðamálum sé þannig háttað að það skipti máli hvaðan vegabréfið kemur. Það er ekki spurning mín hér.

Spurning mín hér er um breytingartillöguna. Ég er að reyna að átta mig á henni. Það er rétt að draga það fram að ég er ekki í allsherjar- og menntamálanefnd. Eitt af þessum gölnu ákvæðum í frumvarpinu frá ríkisstjórn er að verið er að stofna hér biðlistamenningu að nýju. Fyrir nokkru var þessi biðlistamenning í ráðuneytunum þar sem menn komu inn í ráðuneyti, í stjórnarráðið, forsætisráðuneytið eða fjármálaráðuneytið og núna landbúnaðarráðuneytið, til að fá greiða. Og greiðinn fólst í því að það þurfti að fá samþykki ráðherra fyrir því að kaupa eignir. Ég hefði talið skynsamlegast að setja almennar heimildir um eignarhald á jörðum, almennar reglur, almennar heimildir. Það sem ég óttast, eins og uppleggið var hjá ríkisstjórninni, er að það verði háð geðþóttavaldi og, eins og við höfum séð síðustu misseri hjá þessari ríkisstjórn, að það verði háð því hversu sterk tengslin eru við ráðherra hverju sinni hvort fyrirgreiðsla sé í málum eða ekki. Þess vegna vil ég gjarnan fá betri skýringu á því frá hv. þingmanni og framsögumanni nefndarinnar hvort nefndin hafi gert breytingu á nákvæmlega þessu og hvort ákvæðin um það að málið þurfi að fara fyrir ráðherra (Forseti hringir.) til samþykkis eða synjunar, hvort þau (Forseti hringir.) hafi raunverulega verið tekin út eða hvaða nákvæmu breytingar í praktík er verið að leggja til af hálfu nefndarinnar.