Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[13:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum auðvitað lagt af stað út frá því að allir séu spilltir, allir innan ráðuneyta séu spilltir, ef við viljum fara þá leið. Ég kýs að gera það ekki og ég kýs að treysta því að þeir sem gegni slíkri stöðu á hverjum tíma, sem í þessu tilfelli fellur undir landbúnaðarráðuneytið því að þetta fer jú þangað, séu fólk sem vill stunda vinnu sína af heilindum eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður telji sjálfa sig vera að gera. Við höfum heyrt það í samfélaginu að fólk er ekki sátt við þessi risaviðskipti sem hafa átt sér stað með jarðir hér á Íslandi. Það er bara ekki almenn sátt um það í samfélaginu. (ÞGK: Ertu að tala um það?) Við erum m.a. að reyna að ná utan um það hér, það er eitt af því. En það getur vel verið að það sé miður þóknanlegt að vera ekki sammála því óhefta markaðslögmáli sem á að gilda um allt þetta, m.a. samþjöppun jarða. Ég hef t.d. haft áhyggjur af því. Það er eitt að segja: Við erum svo almennileg að við erum með ábúð á öllum þessum jörðum. Við erum með leiguliðamenningu, við erum að búa hana til, að búa til leiguliðamenningu með því að einhverjir stórlaxar kaupi gríðarlega margar jarðir, eins og gerst hefur hér á landi, en eru svo glaðir yfir því að þeir séu með fólk í ábúð þar. Það kom m.a. fram við umfjöllun nefndarinnar um Streng, sem hefur t.d. keypt gríðarlega mikið af landi í Vopnafirði, að það hefði ekki haft nein sérstök áhrif til hækkunar á verði að þeir kæmu þar inn. Ég hef ekki hugmynd um hvort það er satt og rétt en það fullyrtu menn. Þannig að sannarlega þarf að horfa til þess að bændur geti fengið sanngjarnt verð fyrir jarðir sínar, að sjálfsögðu. En það á ekki að setja hinum almenna bónda einhverjar skorður þó að þessi lög verði sett, alls ekki.