150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[15:22]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Mál þetta er í sjálfu sér afar einfalt. Það gengur út á það að fullnusta samning sem var gerður á milli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að stofna félag til að annast framkvæmdir samkvæmt þeim samningi. Það er stundum þannig að þegar við erum að fjalla hér um mál þá byrja menn að tala um eitthvað allt annað og það hefur gerst í þessu máli að menn hafa verið að viðra mjög skoðanir sínar á því hvað væri athugavert við þann ágæta samning og hvort þau markmið sem samningsaðilar hafa sett sér og þau verkefni sem samningsaðilar hafa hugsað sér að ráðast í séu góð eða vond.

Efnislega var lítið eða ekkert fjallað um efni frumvarpsins sjálfs, þó í einhverjum mæli svo maður gæti nú sanngirni. Síðan upphófst mikil umræða í nefndinni og fór svo að skrifað var nefndarálit sem ég var á með fyrirvara. Síðan var búið að ræða hér mikið um málið í þingsal og þá ræðst meiri hlutinn í það verkefni, með þeim sem höfðu sterkastar skoðanir á því, að hér væri allt ómögulegt um það að reyna að gera eitthvað í málinu og sest er yfir það. Ég tók ekki þátt í því, ég tek það skýrt fram, nema bara rétt á fundum nefndarinnar, og það er skrifað framhaldsnefndarálit og er það, að mér skilst, meira og minna allt saman samið í bróðerni við helstu gagnrýnendur málsins. Þá ber svo við að þeir treysta sér ekki til að vera með á þessu framhaldsnefndaráliti og skila sínu eigin framhaldsnefndaráliti. Má draga saman, trúi ég, skoðanir andófsmanna málsins og þeirra sem hafa staðið fyrir þessum framhaldsnefndarálitum í einni setningu sem er í lok framhaldsnefndarálits hv. þm. Birgis Þórarinssonar:

„Minni hlutinn tekur ekki undir það álit meiri hlutans að borgarlínan sé mikilvægt verkefni.“

Þetta er nú kjarni máls og um þetta hefur öll þessi umræða snúist. Eitt hefur þó hafst upp úr henni, þ.e. að öllum er ljóst, sem öllum var reyndar ljóst fyrir, að Miðflokkurinn er á móti borgarlínu. Sá sem hér stendur styður hins vegar borgarlínu og hann styður markmið höfuðborgarsamningsins og telur að hér sé á ferðinni eitt stærsta framfaramál í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu sem ráðist hefur verið í.

Þrátt fyrir að menn tali um að hér sé nú meira og minna búið að koma í veg fyrir alls kyns stórslys, með því að rita setningar inn í nefndarálit, þá er ég þeirrar skoðunar að allar þessar æfingar breyti nú mest litlu þar sem samningurinn um framkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu er skýr. Það er skýrt að félagið verður stofnað með þeim tilgangi sem þar er og ég tel því að sigurræður Miðflokksmanna séu af litlu tilefni.