150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um þá kemur fram í 2. gr. samkeppnislaga að þau lög taka til opinberra aðila í atvinnustarfsemi á sama hátt og einkaaðila. Auðvitað geta opinberar stofnanir gert mistök og jafnvel brotið á réttindum einstaklinga og fyrirtækja en stóri vandinn liggur ekki þar, hv. þingmaður. Talandi um friðarskyldu þá finnst mér hv. þingmaður iðulega setja í forgang hagsmuni einkafyrirtækja, stórfyrirtækjanna. En stóri vandinn er að hér eru dæmi um brot á samkeppnislögum á fjármála- og bankamarkaði, á matvörumarkaði, á lyfjamarkaði, á fjarskiptamarkaði, á eldsneytismarkaði, á byggingarvörumarkaði, á flutningamarkaði, á póstmarkaði, í landbúnaði, í fluginu og í upplýsingatækni. Þetta er íslenska brotasagan. Það er það sem ég er að reyna að draga fram hér. Það gengur ekki að fókusa á lítinn afkima. Ég er ekki að réttlæta brot af neinu tagi. Skoðum það. Hafi hv. þingmaður rökstuddan grun um að verið sé að brjóta á hagsmunum fyrirtækja þá hvet ég viðkomandi aðila til að leita til Samkeppniseftirlitsins, sem ég vil styrkja. En vandinn er hvernig íslensk stórfyrirtæki hafa hagað sér á þessum fákeppnismörkuðum. Það má ekki vera nein friðarskylda, hv. þingmaður. Íslensk fákeppnisfyrirtæki þurfa að finna fyrir því að þau geti ekki hagað sér eins og þau kjósa á markaði. Þau mega ekki misnota markaðsráðandi stöðu, gangast undir óeðlilegar viðskiptahömlur o.s.frv. Brot á samkeppnislögum er ekki brot án fórnarlamba heldur líður allur almenningur fyrir þau. Þegar fyrirtæki brjóta samkeppnislög, hvort sem það er ólögmætt samráð eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, þá eykur það kostnað fyrir íslensk heimili og Ísland, herra forseti, er nógu dýrt fyrir þó svo ekki bætist við hærra verð en ella vegna samkeppnislagabrota hjá íslenskum einkafyrirtækjum.