150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, með síðari breytingum, niðurlagningu flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara. Eins og fram kom hjá hæstv. forseta þá liggur málið sjálft, frumvarpið, fyrir á þskj. 1269 og nefndarálitið með breytingartillögu á þskj. 1737.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín allmarga gesti. Nefndinni bárust umsagnir frá 11 aðilum auk þess sem nefndinni bárust minnisblöð frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og skýrsla frá Capacent en sú skýrsla var unnin fyrir flutningsjöfnunarsjóð olíuvara áður en frumvarpið var lagt fram.

Með frumvarpinu er lagt til að lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, verði felld úr gildi. Þar með verði flutningsjöfnunarsjóður olíuvara lagður niður og hægt að leggja sérstakt flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur sem fluttar eru til landsins og ætlaðar til nota innan lands.

Þess í stað, með byggðasjónarmið að leiðarljósi og í því skyni að tryggja aðgengi að eldsneyti í strjálbýli, er með frumvarpinu lögð til breyting á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011. Lagastoð verði veitt fyrir því fyrirkomulagi að Byggðastofnun annist úthlutun styrkja vegna flutningskostnaðar olíuvara til söluaðila sem starfrækja sölustaði á svæðum sem standa höllum fæti í byggðalegu tilliti og búa við skerta samkeppni af land- og lýðfræðilegum ástæðum.

Um ákvörðun, fyrirkomulag og útreikning styrkja fari samkvæmt reglum sem ráðherra setur í samræmi við heildarfjárhæð til flutningsjöfnunar olíuvara í fjárlögum ár hvert, selt magn olíuvara á viðkomandi sölustað og byggðastuðul sem ákvarðaður er í þeim reglum og skal endurspegla samkeppnisstöðu svæðis í byggðalegu tilliti að mati Byggðastofnunar. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er með fyrirkomulagi þessu leitast við að tryggja styrkveitingu á grundvelli reglna sem byggjast á jafnræði, hlutlægi og gagnsæi.

Þetta er samandregið, það sem er að gerast þarna, en í stuttu máli er verið að leggja niður kerfið sem tekið var í notkun 1995 og koma upp nýju kerfi sem styður við útsölustaði olíuvara í viðkvæmustu byggðum landsins.

Lykilhugtak í þessu nýja kerfi er byggðastuðull en fyrir nefndinni komu fram efasemdir um það hvort það fyrirkomulag sem í frumvarpinu felst væri til þess fallið að einfalda flutningsjöfnun olíuvara. Ekki væru komnar fram nægar forsendur fyrir mati á því þar sem hönnun og útreikningur byggðastuðulsins réði miklu um hvort markmið lagabreytinganna um aukið gagnsæi og einfaldleika næðust.

Þá komu fram sjónarmið um að óljóst væri á hvaða forsendum slíkir stuðlar myndu byggja og að ætla mætti að útreikningur byggðastuðla yrði flókinn. Þar af leiðandi væri breytingin ekki til einföldunar. Af greinargerð með frumvarpinu væri þó ljóst að stuðlarnir myndu ekki byggjast á kostnaði við dreifingu olíuvara, sem hljóti að vera mikilvægasta breytan við jöfnun flutningskostnaðar, heldur aðstæðum á viðkomandi stað. Þar með skapaðist hætta á því að pólitískir hagsmunir yrðu lagðir til grundvallar ákvörðunum um flutningsjöfnun og að byggt yrði á huglægu mati. Skortur á fyrirsjáanleika við úthlutun styrkja væri til þess fallinn að skapa óvissu í samningsgerð og við ákvörðunartöku í rekstri styrkþega.

Þetta var megingagnrýnin sem nefndin leitaðist síðan við að svara í vinnu sinni. Það gerðist m.a. í gegnum áðurnefnt minnisblað frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Þar kemur fram að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að Byggðastofnun hafi rúmt mat við ákvörðun byggðastuðla sem munu því ekki byggjast á sérstökum útreikningum heldur muni stofnunin leggja til stuðla við ráðherra á grundvelli byggðasjónarmiða sem stofnunin telur að nái með sem bestum hætti að tryggja framboð olíuvara í viðkvæmum byggðum. Stuðlana verði að finna í reglugerð sem verður birt í Stjórnartíðindum og því ljóst að grundvöllur styrkja ár hvert verður fyrirsjáanlegur og gagnsær. Með þessu móti verði hægt að koma til móts við viðkvæmustu svæðin hverju sinni.

Með vísan til athugasemda greinargerðar frumvarpsins um 4. gr. ber Byggðastofnun fyrst og fremst að gæta þess að byggðastuðlar feli í sér málefnalega niðurstöðu um samkeppnislega stöðu svæða og byggðarlaga í byggðalegu tilliti. Stofnuninni sé frjálst að líta til þeirra sjónarmiða sem ætla má að leiði til niðurstöðu í sem bestu samræmi við tilgang laganna, t.d. sjónarmiða um fjölda íbúa eða ferðamanna á svæðinu eða fjarlægð svæðis frá hringvegi, stórum þéttbýlisstöðum, birgðastöðvum eða innflutningshöfnum olíu.

Nefndin fékk kynningu á drögum að reglugerðinni en verði frumvarpið að lögum fer reglugerðin í opið samráð þar sem aðrir fá tækifæri til að koma með athugasemdir við hana. Nefndin tekur undir að byggðastuðlarnir séu einföld, gagnsæ og fyrirsjáanleg leið til að nota við að ná markmiðum laganna um að tryggja framboð olíuvara á svæðum sem eru viðkvæm í byggðalegu tilliti. Það geti þó ávallt komið upp álitaefni varðandi aðstæður einstakra byggðarlaga og byggðastuðla þeirra. Aðstæður geti auðvitað breyst og þá sé mikilvægt að hægt sé að bregðast við.

Þetta var um byggðastuðlana. Þá er það um vörugjald og verðþróun og hækkun vörugjalds. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að framlag úr ríkissjóði til svæðisbundinnar flutningsjöfnunar verði fjármagnað með hækkun vörugjalda á olíuvörur. Var það gagnrýnt fyrir nefndinni. Nú þegar væri flutningsjöfnunargjald í verðlagningu olíuvara og bent á að það væri því óþarfi að hækka vörugjaldið. Niðurstaðan samkvæmt breytingunni er sú að álögð flutningsjöfnunargjöld hafi síðustu ár verið á bilinu 370–400 millj. kr. árlega en gert sé ráð fyrir að kostnaður við nýtt fyrirkomulag verði 170 millj. kr. árlega og vörugjöld á olíuvörur hækki sem því nemur. Heildarinnflutningsgjöld lækki því sem nemur 200–230 millj. kr. árlega. Þar sem nú sé lagt til að styrkir verði veittir á grundvelli byggðasjónarmiða en ekki eingöngu á grundvelli kostnaðar við flutning þá lækka þessi gjöld. En markmiðið er að halda úti sölu eldsneytis á strjálbýlum svæðum með minni kostnaði en nú fer í flutningsjöfnunina.

Nefndin tekur undir að hækkun vörugjalds á olíuvörur sé einfaldari og skilvirkari leið en núverandi flutningsjöfnunargjald auk þess sem álögur á olíuvörur minnki. Þarna verður sem sagt bæði einföldun og gjöld lækka.

Þá var fyrir nefndinni nokkuð rætt um áhrif breytinganna á samkeppni. Ég ætla ekki að fara yfir allt það sem kom fram þar en samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar frá Capacent um mat á byggðaáhrifum breytinga á flutningsjöfnun olíuvara eru ekki taldar miklar líkur á því að eldsneytisverð breyttist umtalsvert þótt flutningsjöfnun yrði lögð af, þar væru að verki aðrir og mun sterkari kraftar. Vegna misjafnrar dreifingar sölustaða olíufélaganna um landið gætu afleiðingarnar orðið að sölustöðum myndi fækka og aðgengi að eldsneyti þar með versna. Nefndin áréttar að markmið frumvarpsins er að tryggja aðgengi að eldsneyti í viðkvæmustu byggðum landsins og til að ná því markmiði verður að koma til móts við söluaðila sem starfrækja sölustaði á svæðum sem standa höllum fæti í byggðalegu tilliti og búa við skerta samkeppni af land- og lýðfræðilegum ástæðum.

Svo var nokkuð fjallað um reglur um ríkisstyrki og þjóðréttarlegar skuldbindingar og ætla ég bara rétt að nefna niðurstöður nefndarinnar þar. Nefndin telur frumvarpið falla að gildandi reglum og skuldbindingum á þessu sviði. Nánar er hægt að lesa um það í nefndarálitinu.

Þá aðeins um flokka olíuvara en bent var á það að orðalag 2. gr. frumvarpsins tæki ekki mið af gildandi stöðlum hvað varðaði flokkun eldsneytis. Innkaup hérlendra olíufélaga byggist öll á þeim stöðlum og því beri að miða flokkanna við ISO-staðla sem almennt séu notaðir í þessu skyni.

Nefndin leitaði álits ráðuneytisins sem tók undir þessi sjónarmið og því leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu þess efnis að kveðið verði á um að jöfnunarstyrkir taki til flutningskostnaðar á olíuvörum, með sömu undantekningu að styrkir nái ekki til flutningskostnaðar á olíum ætluðum til útflutnings. Þá er lagt til að við ákvæðið bætist nýr málsliður um að ráðherra skuli setja reglur um þá flokka olíuvara sem heimilt er að styrkja. Í ljósi þess að flokkar olíuvara eru margir og breytilegir standi rök með því að veita ráðherra svigrúm til útfærslu í reglugerð, fremur en að festa tiltekna flokka olíuvara í lög, ef til þess kæmi að flokkur olíuvöru félli úr notkun eða ekki þætti ástæða til að styrkja sölu hans frekar vegna annarra sjónarmiða, t.d. umhverfissjónarmiða.

Svo er hér umfjöllun um flutningsjöfnun flugvélaeldsneytis. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að rétt væri að frumvarpið næði einnig til jöfnunar á flutningskostnaði flugvélaeldsneytis vegna millilandaflugs frá flugvöllum utan höfuðborgarsvæðisins. Bæta þyrfti samkeppnishæfni flugfélaga og millilandaflugvalla á landsbyggðinni þar sem flugvélaeldsneyti væri dýrara en á suðvesturhorninu. Raunar var það svo að allmargar umsagnir gengu út á umfjöllun um jöfnun við flutningskostnað flugvélaeldsneytis en það er í rauninni alveg skýrt, bæði í greinargerð með frumvarpinu og umfjöllun sem fram fór í nefndinni, að þetta frumvarp getur ekki náð utan um það og ætla ég aðeins að fara yfir rökin fyrir því. Slík breyting hefði í för með sér verulegar breytingar á ríkisstyrkjakerfi og þá breytingu myndi í öllu falli þurfa að tilkynna til ESA. Ekki hafi farið fram nein greining á því hvort slíkir styrkir séu til þess fallnir að lækka eldsneytisverð. Þar af leiðandi sé ekki tímabært að mæla fyrir um slíka styrki að sinni.

Fyrir liggur að jöfnunargreiðslur vegna flugvélaeldsneytis hafa aðeins verið lítill hluti heildarflutningsjöfnunar undanfarin ár, mjög lítill hluti, og markmið þessa frumvarps er fyrst og fremst að tryggja aðgengi að eldsneyti í strjálbýli. Nefndin vill samt sem áður í þessu nefndarálit árétta mikilvægi þess að niðurstaða fáist sem fyrst í verkefni B-10 í byggðaáætlun um að jafna aðstöðumun vegna þjónustu á millilandaflugvöllum. Samræmist sú vinna þeirri stefnu stjórnvalda að opna fleiri hlið inn til landsins en vinna að markmiðinu hefur tekið lengri tíma en stefnt var að við samþykkt byggðaáætlunar.

Hér er kafli um fjárveitingar en fyrir nefndinni var mælst til þess að fjárveitingar til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara samkvæmt fjárlögum hvers árs yrðu undanþegnar aðhaldskröfu og fylgdu markmiðum byggðaáætlunar. Reynslan sýndi að fjárveitingar væru fremur háðar aðhaldskröfum ríkissjóðs á hverjum tíma en þróun byggðar. Þetta var hluti af þeim áhyggjum að markmiðin næðust ekki vegna takmarkaðra fjármuna.

Nefndin leggur áherslu á að verðgildi stuðnings til flutningsjöfnunarinnar haldist í samræmi við mat Byggðastofnunar á þörf fyrir flutningsjöfnun á hverjum tíma enda sé það grundvöllur kerfisins og nauðsynlegt til að ná markmiðum frumvarpsins.

Þá eru það orkuskipti í samgöngum. Fram komu sjónarmið um að athuga þyrfti hver áhrif beinna styrkja til dreifingar á tilteknum orkugjöfum gætu verið á framþróun og útbreiðslu annarra orkugjafa í ljósi markmiða stjórnvalda um orkuskipti samgangna. Mikilvægt væri að eldsneytisafgreiðslur í mesta strjálbýli fylgdu þróun þéttbýlli svæða og að beitt yrði sértækum styrkjum til að mæta framþróun bílaflotans.

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um samspil markmiða stjórnvalda um að skipta yfir í umhverfisvæna orkugjafa og flutningsstyrki vegna sölu olíuvara samkvæmt frumvarpinu. Ljóst sé að atvinnuvegir og samgöngur í byggðum fjarri þéttbýliskjörnum séu enn háð olíuvörum sem orkugjafa og því sérstakt byggðamál að tryggja að þjónusta með olíuvörur haldi áfram í viðkvæmum byggðum, í það minnsta á meðan orkuskiptin fari fram. Efni frumvarpsins sé nauðsynlegt til að ná slíku markmiði.

Nefndin telur mikilvægt að það kerfi sem mælt er fyrir um í frumvarpinu vinni ekki gegn markmiðum stjórnvalda um orkuskipti. Auk þess verði ekki annað séð en að stuðningur við raunverulegar þarfir viðkvæmra byggða á hverjum tíma sé forsenda fyrir þróun byggðar til langframa, þar á meðal orkuskipta.

Síðan er það síðasti kaflinn í nefndarálitinu um skilgreiningar laga um svæðisbundna flutningsjöfnun en lög um svæðisbundna flutningsjöfnun hafa til þessa fjallað um flutningsjöfnunarstyrki til framleiðenda vöru og miða skilgreiningar hugtaka í 3. gr. laganna við það. Nefndin vakti athygli ráðuneytisins á því misræmi sem skapast myndi yrði frumvarpið að lögum. Ráðuneytið tók undir nauðsyn þess að uppfæra tilteknar skilgreiningar laganna til samræmis við þær efnislegu breytingar sem lagðar eru til, þar sem nú nái flutningsjöfnunin ekki eingöngu til framleiðenda.

Að auki var bent á tvær aðrar breytingar til að skerpa enn betur á þessum mun. Annars vegar að tekið verði fram með skýrum hætti í 1. mgr. 7. gr. laganna að þess skuli getið í reglugerð hvaða gögn eigi að fylgja umsókn um flutningsjöfnunarstyrk vegna sölu olíuvara, samanber 5. gr. frumvarpsins þar sem lagðar eru til breytingar á þeirri grein, og hins vegar að nýr málsliður bætist við 9. gr. laganna þar sem kveðið verði með skýrum hætti á um að í skýrslu ráðherra vegna flutningsjöfnunarstyrkja til framleiðenda verði einnig kafli um flutningsjöfnunarstyrki vegna sölu olíuvara og hvað eigi að koma fram í þeim kafla. Lagt er til í framhaldi af þessu að við bætist greinar þess efnis. Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Undir álitið rita hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Vilhjálmur Árnason og Vilhjálmur Bjarnason. Hv. þingmenn Hanna Katrín Friðriksson og Karl Gauti Hjaltason rita undir álitið með fyrirvara. Hv. þm. Bergþór Ólason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Hef ég þá gert grein fyrir málinu.